Innlent

Ætla ekki að endurnýja samstarfið við Hraðbraut

Valur Grettisson skrifar
Ólafur Haukur Johnson.
Ólafur Haukur Johnson.

Samstarfssamningur ríkisins við menntaskólann Hraðbaut verður ekki framlengdur en skólinn hefur sætt gagnrýni fyrir sérkennilega meðferð opinbers fjár sem rann til skólans.

Þannig gerði Ríkisendurskoðun úttekt á skólanum en niðurstaða hennar, sem birtist í október, var áfellisdómur fyrir stjórnendur skólans.

Þar kom meðal annars fram að á tímabilinu 2003 til 2009 hafi arðgreiðslur Menntaskólans Hraðbraut til eigenda hans numið samtals 82 milljónum króna.

Ríkisendurskoðun taldi að skólinn hafi í raun ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að greiða þennan arð. Einnig kom fram í skýrslu ríkisendurskoðanda að lán skólans til aðila tengdra eigendum hans hafi numið samtals 50 milljónum króna í árslok 2009.

Skúli Helgason, formaður menntamálanefndar Alþingis, sagði í viðtali við dv.is í gærkvöldi, að nefndin myndi ekki mæla með því að samstarfssamningur við núverandi eigendur skólans yrði framlengdur í ljósi niðurstöðu Ríkisendurskoðunnar.

Skúli sagði ennfremur að það væri hans skoðun að menntamálaráðuneytið hefði brugðist sínu eftirlitshlutverki og að meðferð stjórnenda skólans á opinberu fjármagni hefði verið með þeim hætti að það var ekki hægt að sætta sig við það.

Einn af eigendum og skólastjóri Hraðbrautar er Ólafur Haukur Johnson.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×