Enski boltinn

Stoke vill ekki selja Shawcross

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ryan Shawcross, til hægri, í leik með Stoke.
Ryan Shawcross, til hægri, í leik með Stoke. Nordic Photos / Getty Images
Peter Coates, stjórnarformaður Stoke City, segir að félagið hafi ekki áhuga á að selja varnarmanninn Ryan Shawcross en viðurkenndi að önnur félög hefðu lýst yfir áhuga á kappanum.

Shawcross er 23 ára gamall og er í dag einn besti miðvörður ensku úrvalsdeildarinnar. Hann hefur verið valinn í enska landsliðið og var um tíma orðaður við Manchester United.

„Hann er góður leikmaður og það er alltaf áhugi fyrir góðum leikmönnum," sagði Coates. „En Ryan er leikmaður okkar og við ætlum að halda því þannig. Hann er ekki til sölu."

„Hann er búinn að koma sér vel fyrir á svæðinu með sína ungu fjölskyldu. Hann kom ungur sjálfur til félagsins og hefur bætt sig mikið síðan þá og mun halda áfram á þeirri braut með okkur. Hann hentar okkur vel og við hentum honum vel. Þetta er því fullkomin samvinna."

Shawcross er uppalinn hjá United en kom til Stoke árið 2007. Alex Ferguson, stjóri United, hefur verið sagður áhugasamur að fá kappann aftur í sínar raðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×