Innlent

„Hátíðisdagur þegar Ísland stendur þá aftur algjörlega á eigin fótum“

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Fjármálaráðherra segir að vinnu vegna þriðju endurskoðunar efnahagsáætlunar fyrir Ísland sé lokið og er vongóður um að áætlunin verði staðfest af stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í næsta mánuði.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist í vikunni vera vongóð um að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins myndi staðfesta þriðju efnahagsáætlun fyrir Ísland.

Erum við að sjá fram á að það verði raunin? „Vinnunni er í grófum dráttum lokið og samkvæmt þeirra tímaplani þá ætti fyrirtaka að verða í fyrri hluta september og þangað til annað kemur í ljós bindum við einfaldlega vonir um að svo verði," segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Eftir aðra endurskoðun sjóðsins í apríl var tilkynnt um að Ísland gæti fengið allt 160 milljónir dollara til viðbótar að láni frá sjóðnum, en það er jafnvirði tæplega 20 milljarða króna. Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, var hér á landi dagana 19.-22. júlí síðastliðinn og gaf út tilkynningu í kjölfarið um að áætlun sjóðsins hefði skilað árangri. Samdrátturinn hefði verið minni en óttast var um, verðbólga væri að hjaðna og krónan hefði náð stöðugleika.

Hvenær losnum við við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? „Ef allt fer vel verður samstarfinu við sjóðinn lokið um mitt næsta ár og það verður hátíðisdagur þegar Ísland stendur þá aftur algjörlega á eigin fótum og þarf ekki á utanaðkomandi aðstoð að halda. Það ætti að geta orðið upp úr miðju næsta ári ef allt gengur vel," segir Steingrímur.

 Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.