Innlent

RÚV hafnar aðdróttunum Vinstri grænna

Stjórn Ríkisútvarpsins harmar ályktun flokksráðs Vinstri grænna um síðustu helgi og „hafnar þeim aðdróttunum sem þar er beint að starfsfólki og starfsemi RÚV.“ Stjórnin telur ályktunina meiðandi fyrir starfsfólk Ríkisútvarpsins og lýsa fádæma vanþekkingu flutningsmanna og þeirra sem hana samþykktu.

Flokksráð VG sem haldinn var á Akureyri um síðustu helgi samþykkti ályktun þar sem þungum áhyggjum er lýst af stöðu fjölmiðla á Íslandi. Þar segir að stjórnendum RÚV hafi ekki borið gæfu til að skilja hlutverk stofnunarinnar. Þess í stað hafi verið lögð áhersla á ungar, vellaunaðar sjónvarpsstjörnur, forstjóralaun og jeppa. Jafnframt segir í ályktuninni að niðurskurðartillögur stofnunarinnar gangi út á að losna við láglaunaða og reynda útvarpsmenn.

Stjórn RÚV fundaði í gær og fjallaði meðal annars um ályktun flokksráðs Vinstri grænna. „Stjórn Ríkisútvarpsins telur að starfsfólki Ríkisútvarpsins hafi tekist afar vel - við erfiðar aðstæður með takmarkað og þverrandi fjármagn - að uppfylla þau skilyrði sem starfseminni eru sett í þjónustusamningi við menntamálaráðherra," segir í ályktuninni.

Þar segir jafnframt að stjórn Ríkisútvarpsins standi nú í annað skipti á einu ári frammi fyrir mjög alvarlegum niðurskurði sem ríkisstjórn Íslands hafi ákveðið. „Ekkert tillit var tekið til þess árangurs sem náðst hafði í upphafi síðasta árs í hagræðingu á starfsemi Ríkisútvarpsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir stjórnar og stjórnenda til þess að draga úr kröfum ríkisstjórnarinnar um niðurskurð sem mun hafa í för með sér uppsagnir starfsmanna og samdrátt í dagskrárframboði."


Tengdar fréttir

VG: Ráðning Davíðs skólabókardæmi um misnotkun

Ráðning Davíðs Oddssonar og Haralds Johannessen sem ritstjórar Morgunblaðsins og sviptingar í mannahaldi eru skólabókardæmi um að fjölmiðlum sé nú grímulaust beitt sem áróðurstækjum eigenda sinna. Þetta er kemur fram í ályktun sem flokksráð Vinstri grænna samþykkti á fundi sínum á Akureyri í dag en þar er þungum áhyggjum lýst af stöðu fjölmiðla á Íslandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.