Innlent

Vefþjónn nefndarinnar við öllu búinn

Undanfarnar vikur hefur vinna staðið yfir að undirbúa netþjón rannsóknarnefndar Alþingis sem myndi anna því mikla álagi sem verður á honum þegar skýrslan verður loks birt.
Fréttablaðið/Stefán
Undanfarnar vikur hefur vinna staðið yfir að undirbúa netþjón rannsóknarnefndar Alþingis sem myndi anna því mikla álagi sem verður á honum þegar skýrslan verður loks birt. Fréttablaðið/Stefán

Unnið hefur verið að því undanfarnar vikur að gera vef rannsóknarnefndar Alþingis viðbúinn miklu álagi sem búast má við að verði á honum þegar skýrsla nefndarinnar um bankahrunið verður gerð opinber. Sérstakur viðbúnaður tæknimanna verður fyrstu dagana eftir birtingu en vefurinn verður gæddur þeim eiginleikum að hægt verði að leita eftir efnisorðum, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá hefur skýrslu nefndarinnar verið frestað og er nú búist við því að hún verði birt í lok næsta mánaðar. Skýrslan verða gríðarlega umfangsmikil og er talið að hún geti jafnvel orðið tvö þúsund síður. Vart þarf að taka það fram að mikil eftirvænting og spenna ríki í þjóðfélaginu eftir útgáfu skýrslunnar en starfsmenn nefndarinnar hafa lýst því yfir að engin nefnd hafi þurft að færa þjóðinni jafn svört tíðindi og þessi.

Skýrslan verður einnig prentuð og má reikna með að Alþingismenn og fjölmiðlar fái hana. Páll Hreinsson, formaður nefndarinnar, vildi ekki gefa upp hvar hún yrði prentuð af öryggisástæðum. „Við höfum verið spurð að því hverjir séu að prófaarkalesa hana en það verður heldur ekki gefið upp,“ segir Páll í samtali við Fréttablaðið en skýrslan verður aðgengileg á netinu um leið og hún kemur út á prenti.-fgg



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×