Innlent

Ákærðir fyrir hrottalegt ofbeldi

Héraðsdómur Reykjaness Mönnunum hefur verið stefnt fyrir rétt fyrir alvarleg hegningarlagabrot.
Héraðsdómur Reykjaness Mönnunum hefur verið stefnt fyrir rétt fyrir alvarleg hegningarlagabrot.
Fjórir menn hafa verið ákærðir fyrir frelsissviptingu og stórfellda líkamsárás í Reykjanesbæ í apríl síðastliðnum. Mönnunum er gefið að sök að hafa svipt mann frelsi í fjórtán klukkustundir, beitt hann ofbeldi og hótað honum meira ofbeldi og lífláti ef hann greiddi ekki meinta skuld. Sá elsti fjórmenninganna er samkvæmt ákæru talinn hafa haft sig mest í frammi.

Í ákæru segir að mennirnir hafi ítrekað slegið fórnarlambið í andlit og skallað hann. Því næst hafi þeir læst hann inni í fataskáp og hengt logandi 400 vatta peru fyrir ofan hann. Þá hafi þeir vafið rafmagnssnúru um háls mannsins og dregið hann í snörunni. Maðurinn hafi nánast misst meðvitund vegna þessa. Hann var svo bundinn við stól og skilinn eftir klukkstundum saman.

Næsta dag fóru ofbeldismennirnir með manninn í banka þar sem honum var sagt að taka út peninga, því næst var haldið í apótek þar sem manninum var gert að leysa út lyfseðil. Að síðustu neyddu þeir manninn til að stela verkfærum sem stóðu á gangstétt. Fórnarlamb ofbeldisins var handtekið skömmu síðar fyrir verkfærastuldinn.

Krafist er refsingar yfir öllum ákærðu og einnig að þeir greiði fórnarlambinu milljón króna í miskabætur auk málskostnaðar. - bþh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×