Innlent

Breyttu bæjarstjóra í framkvæmdastjóra

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Árborg samþykktu á bæjarstjórnarfundi í gær að breyta starfsheitinu Bæjarstjóri í framkvæmdastjóri. Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar mótmæltu þessari breytingu harðlega og lögðu fram bókun á fundinum.

Í henni stóð meðal annars að starfsheitið "framkvæmdastjóri" er mjög almennt og lýsir á engan hátt starfsvettvangi æðsta embættismanns sveitarfélags að mati bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar.

Þá segir orðrétt: „Starfsheiti framkvæmdastjóra sveitarfélaga á Íslandi eru borgarstjóri, bæjarstjóri og sveitarstjóri. Þau eiga sér langa hefð og eru notuð um allt land."

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar minna svo á að sveitarfélög eru þjónustustofnanir fyrir íbúana rekin fyrir almannafé en ekki fyrirtæki rekin í hagnaðarskyni.

Sjálfstæðismenn eru þessu ósammála og lögðu fram bókun og gerðu grein fyrir atkvæðum sínum. Þar sagði orðrétt:

„Starfsheiti æðsta embættismanns sveitarfélaga á Íslandi er framkvæmdastjóri. Hér er verið að breyta samþykktum um starfsheiti til samræmis við gildandi lög en valdsvið framkvæmdastjóra er óbreytt."

Engu að síður var nafngift bæjarstjórans breytt en 51 einstaklingur hefur sótt um starf framkvæmdastjóra Árborgar. Þar á meðal Gunnar I. Birgisson, bæjarfulltrúi Kópavogs og fyrrverandi bæjarstjóri og Inga Jóna Þórðardóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×