Innlent

Flóknum spurningum ósvarað

Guðni A. 
Jóhannesson
Guðni A. Jóhannesson
Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri segir að breytingar á frumvarpi iðnaðarráðherra um verndar- og nýtingaráætlun kalli á að svarað verði spurningum um stöðu Torfajökulssvæðisins og einstakra svæða á Reykjanesi og í Krýsuvík.

Breytingin felur í sér að ekki megi taka nýjar ákvarðanir um að ráðast í virkjanir innan friðlýstra svæða óháð niðurstöðum þeirrar vinnu sem fram hefur farið við gerð rammaáætlunar. Með breytingunni var leystur ágreiningur stjórnarflokkanna sem hafði valdið því að málið komst ekki á dagskrá Alþingis mánuðum saman. „Samkvæmt þessu koma virkjanakostir á friðuðum svæðum ekki til greina," segir Guðni orkumálastjóri.

Óvíst sé hvort breytingin muni hafa einhver áhrif í raun en hún feli í sér víðtækari ályktanir um gildi friðunar en hingað til. Verið sé að láta friðun ná til markmiða sem ekki hafa verið skilgreind. Ein af þeim spurningum sem svara þurfi í framhaldinu sé hvort ætlunin sé að útiloka frekari rannsóknir og mat á Torfajökulssvæðinu. Búið sé að leggja mat á svæðið í heild og gefa náttúruverndargildi þess háa einkunn. Eftir sé að skoða einstaka virkjanakosti innan þess.

„Það er spurning hvort menn vilja halda áfram að kanna svæðið eða loka því hér og nú," segir Guðni. Eins geti þurft að svara flóknum lagatæknilegum spurningum um stöðu einstakra svæða í Krýsuvík og á Reykjanesi. - pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×