Enski boltinn

Cech pirraður út í sóknarmenn Chelsea: Rangstæðir í hverri sókn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Petr Cech, markvörður Chelsea.
Petr Cech, markvörður Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Petr Cech, markvörður Chelsea, er viss um að stjórinn Carlo Ancelotti geti snúið við slæmu gengi liðsins en ensku meistararnir hafa aðeins náð í sex stig út úr síðustu átta deildarleikjum og sitja ekki lengur í Meistaradeildarsæti. Þeir geta reyndar bætt úr því á móti Grétari Rafni Steinssyni og félögum í Bolton í kvöld.

„Þið verður að spyrja Carlo sjálfan hvernig honum líður en ég held að hann ráði við þetta verkefni. Hann er með mikla reynslu og það var mikil pressa á honum þegar hann var með AC Milan liðið," sagði Petr Cech.

„Á síðasta tímabili fórum við líka í gegnum erfitt tímabil þar sem pressan var mikil á liðinu. Við náðum að koma til baka og vinna tvennuna og við ætlum að reyna að endurtaka leikinn í vor," sagði Cech eftir 1-3 tap Chelsea á móti Arsenal.

Petr Cech, markvörður Chelsea.Mynd/Nordic Photos/Getty
„Okkur hefur ekki tekist að finna taktinn því við erum að taka rangar ákvarðanir og ekki að gefa réttu sendingarnar. Við erum líka alltaf rangstæðir í hverri sókn og svo erum við líka að gera varnarmistök á síðasta þriðjunginum. Þetta eru ástæðurnar fyrr því af hverju við erum ekki að vinna leiki," sagði Cech.

„Við höfum ekki náð góðum úrslitum undanfarin mánuð og erum komnir inn í vítahring. Við gerum mistök, er refsað og náum síðan ekki að skora mörk sjálfir. Það lenda allir í mótlæti í íþróttum og það er undir okkur komið að snúa þessu við. Við reynum að finna lausnir og höldum áfram okkar vinnu," sagði Cech.

„Við verðum bara að fá einn leik þar sem hlutirnir detta aðeins með okkur. Um leið og við náum fyrsta sigrinum þá getur allt breyst skyndilega," sagði Cech að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×