Innlent

Andmælabréfin hafa verið send út

Rannsóknarnefnd Alþingis hefur sent út andmælabréf til þeirra einstaklinga í stjórnkerfinu sem nefndin telur að hafi hugsanlega sýnt vanrækslu í starfi í aðdraganda bankahrunsins.

Útgáfu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið hefur verið frestað í tvígang en nú er stefnt að því að skýrslan komi út í lok febrúar - þó hefur engin dagsetning verið negld niður.

Nefndinni er meðal annars ætlað að skoða möguleg brot á lögum um ráðherraábyrgð en meginhlutverk nefndarinnar er að leita skýringa á aðdraganda og orsökum bankahrunsins.

Gagnaöflun nefndarinnar er nú lokið. Samkvæmt lögum um Rannsóknarnefndina á hún að gera þeim sem ætla má að orðið hafi á mistök eða hafi orðið uppvís að vanrækslu í starfi skriflega grein fyrir afstöðu sinni að lokinni rannsókn.

Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndarinnar, segir að nú sé búið að senda út svokölluð andmælabréf en þeir sem fá slík bréf hafa nú rúm til að leita sér lögfræðiaðstoðar og nýta sér andmælarétt sinn.

Páll vildi ekki gefa upp hversu mörg bréf hafa verið send út.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×