Innlent

Gleymdu lögum um þjóðaratkvæði

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir.

„Ég er að leggja þetta fram til að þjóðin fái að segja álit sitt á málinu," segir Vigdís Hauksdóttir, fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sjö þingmanna úr öllum flokkum nema Samfylkingu um þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins.

Samkvæmt tillögunni á að halda atkvæðagreiðsluna sama dag og kosið er til stjórnlagaþings, 27. nóvember. Gallinn er sá að samkvæmt lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur, sem Alþingi samþykkti í júní, skulu líða minnst þrír mánuðir frá því Alþingi samþykkir þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu þar til atkvæðagreiðslan fer fram.

„Ég var búin að gleyma þessum lögum," viðurkennir Vigdís sem sjálf tók þátt í að samþykkja lögin í júní. Að fenginni fyrirspurn Fréttablaðsins kveðst Vigdís munu leggja fram á Alþingi í dag frumvarp til að breyta lögunum frá því í júní.

„Það er náttúrulega alveg galið, ef það er brýnt málefni sem kemur upp í þjóðfélaginu og nota á kosningadag til að spara 250 milljónir, að það séu þannig tímamörk á því að þjóðar­atkvæðagreiðslan fari ekki fram," segir Vigdís sem kveðst bjartsýn á að tillaga sjömenninganna verði samþykkt á Alþingi. - gar





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×