Innlent

Langjökull krosssprunginn á slysstaðnum

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Sjö ára drengur liggur nú á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi eftir að hann bjargaðist úr hyldjúpri sprungu á Langjökli síðdegis í gær. Móðir hans var látin þegar hún náðist upp úr sprungunni.

Þau mæðgin voru í jeppaleiðangri ásamt fleira fólki og munu þau hafa verið á göngu skammt frá jeppunum þegar þau féllu í sprungu í vestanverðum Langjökli undir eitt í gær. Björgunarsveitarmenn fór að drífa að upp úr klukkan tvö og um klukkan þrjú náðist konan upp úr sprungunni. Hún reyndist þá látin, 45 ára gömul.

Aðstæður til björgunarstarfa voru góðar að því leyti að verðið var gott og logn á svæðinu. Ásgeir Kristinsson var vettvangsstjóri Björgunarfélags Akraness á staðnum. Hann segir að aðstæður í sprungunni hafi verið erfiðar.

„Hún var þröng og fallið var töluvert þannig að það var frekar þröngt fyrir björgunarmenn að athafna sig þar. Þeir fóru tveir niður og fór annar þeirra neðar til þessa að vinna við sjálfa björgunina en hinn aðstoðaði og bar skilaboð upp," segir Ásgeir. Hann telur að mæðginin hafi fallið allt að 30 metra.

Ásgeir segir svæðið ótryggt, jökullinn sé krosssprungin á þessum stað, til marks um það hafi þeir sem komu fyrstir á vettvang misst dekk ofan í sprungu. Drengurinn féll dýpra ofan í sprunguna en móðir hans og tók það tvo tíma til viðbótar að ná honum upp, en það tókst um fimmleytið. Þá hafði drengurinn verið ofan í myrkri sprungunnar í um fjórar klukkustundir.

Að sögn Ásgeirs lögðu margir hönd á plóginn við björgunarstarfið, auk um 120 björgunarsveitarmanna hjálpuðu til bæði ferðalangar og aðstandendur mæðginanna.

Þegar fréttastofa náði sambandi við vakthafandi lækni á gjörgæsludeild Landspítalans í morgun sagði hann líðan drengsins eftir atvikum en honum er haldið sofandi í öndunarvél.

„Þetta er erfið stund og okkar hugur er hjá aðstandendum," segir Ásgeir.




Tengdar fréttir

Kona lést á Langjökli

Konan sem féll í sprungu á Langjökli ásamt sjö ára gömlum syni sínum var látin þegar björgunarsveitarmenn komu á vettvang. Drengurinn var fluttur með þyrlu á Landspítala.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×