Innlent

Óli Björn vill opinn fund með háskólarektorum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill umræðu um framtíð háskólanna.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill umræðu um framtíð háskólanna.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur óskað eftir því að haldinn verði fundur í menntamálanefnd Alþingis með rektorum allra háskóla. Óli Björn vill að þar verði farið yfir áætlaðan niðurskurð til háskóla, hvaða áhrif lægri framlög hafa og hvernig skólarnir geti brugðist við. Þá vill hann að rætt verði um það hvort og þá hvernig háskólar geti aukið samvinnu sín á milli og hugsanlega hvort rétt sé að sameina einhverja skóla.

Óli Björn segist hafa lagt sérstaka áherslu á nauðsyn þess að allir forráðamenn háskóla verði viðstaddir fundinn. Hann segir að þetta skipti gríðarlega miklu máli enda sé það reynsla annarra þjóða, sem glímt hafi við efnahagserfiðleika, að fjárfesting í menntun sé besta leiðin út úr erfiðleikum. Óli Björn segist vilja að þessi fundur menntamálanefndar verði opinn og aðgengilegur fyrir alla á netinu.

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er sagt frá því að Háskólar á Íslandi búi sig undir niðurskurð á næsta ári en boðuð hafi verið skerðing um 7,5-8%. Á sama tíma aukist ásóknin í skólana sem geri þeim erfiðara um vik að skera niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×