Innlent

Greiddi 400 þúsund fyrir viðgerð á spíssum

Fleiri eigendur Land Cruiser 120 vilja meina að um galla sé að ræða.
Fleiri eigendur Land Cruiser 120 vilja meina að um galla sé að ræða.
Fleiri ósáttir Land Cruiser-eigendur hafa komið fram í kjölfar umfjöllunar Fréttablaðsins í gær um meinta galla í Land Cruiser 120 bifreiðum. Þar sagði Aubert Högnason frá samskiptum sínum við Toyota á Íslandi varðandi meintan galla í spíssum bílanna. Vildi hann meina að um þekktan galla væri að ræða sem gæti valdið eigendum miklum fjárútlátum. Talsmaður Toyota vísaði þessum ásökunum á bug og sagði að um einangruð tilfelli væri að ræða en ekki þekktan galla. Ekki væri því ástæða til innköllunar, en sú ákvörðun væri á hendi Toyota erlendis.

Bárður Ragnarsson, sem á 2005 árgerð af Land Cruiser 120, hafði samband við ritstjórn og hafði svipaða sögu að segja þar sem bifreið hans bilaði fyrir skemmstu. „Ég fór að heyra glamur og einhver skot í vélinni þannig að ég fór með bílinn í skoðun á Toyota-verkstæði í Kópavoginum. Þar sögðu þeir mér að grófsigtið í olíupönnunni væri ónýtt og spíssarnir bilaðir.“

Bárður greiddi 402 þúsund krónur fyrir viðgerðina þar sem skipt var um spíssa og grófsíu. Hann segist hafa haft samband við Toyota og viljað fá bilunina viðurkennda sem galla og viðgerðarkostnað endurgreiddan.

Hann fékk hins vegar þau svör að þó að Toyota á Íslandi hafi áður séð bilun sem þessa, sé hún ekki algild og ekki hægt að segja að um galla sé að ræða. Líklegra sé að aldri og notkun bifreiðarinnar sé um að kenna, og sat Bárður því uppi með kostnaðinn. - þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×