Innlent

Kjartan ekki kallaður fyrir Rannsóknarnefndina

Endurskoðunarnefnd gamla Landsbankans sem bar lögum samkvæmt að ganga úr skugga um að nægjanlegt eftirlit væri með Icesave og rekstri bankans hefur ekki verið boðuð í yfirheyrslu hjá Rannsóknarnefnd Alþingis. Í endurskoðunarnefndinni sátu Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, Þorgeir Baldursson í Odda og Andri Sveinsson, fjármálastjóri hjá Novator.

Endurskoðunarnefndir eiga að vera í öllum bönkum. Samkvæmt lögum um ársreikninga ber þessum nefndum að hafa eftirlit með virkni innra eftirlits og áhættustýringu.

Hlutverk þeirra er meðal annars að sannreyna hvort ársreikningar gefi glögga mynd af rekstrinum - og ganga úr skugga um að nægjanlegt eftirlit sé innan bankans.

Nefndin er líka ábyrg fyrir að tryggja eftirlit með áhættu í rekstri fyrirtækis.

Icesave reikningar Landsbankans voru grunnur að fjármögnun bankans og því mikilvægur þáttur í allri starfseminni.

Í endurskoðunarnefnd Landsbankans árið 2008, fram að hruni sátu Kjartan Gunnarsson, sem formaður, Þorgeir Baldursson sem óháður stjórnarmaður og Andri Sveinsson sem fulltrúi eigenda bankans.

Andri starfar sem fjármálastjóri Novator Partners, félags í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum ítarleg gögn úr öllum bönkunum, þar á meðal fundargerðir og önnur gögn úr Landsbankanum sem tengjast Icesave reikningunum. Heimildir herma að meðlimir endurskoðunarnefndar Landsbankans hafi ekki verið boðaðir í yfirheyrslu hjá nefndinni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.