Íslenski boltinn

Logi fimmti þjálfari KR í röð sem hættir á miðju tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar er tekinn við.
Rúnar er tekinn við. Fréttablaðið/Valli
Logi Ólafsson varð í gær enn einn þjálfarinn sem þarf að standa upp frá hálfkláruðu verki í Vesturbænum þegar hann og stjórn Knattspyrnudeildar KR komust sér saman um að best væri að Logi hætti sem þjálfari KR-liðsins.

KR situr í fjórða neðsta sæti Pepsi-deildar karla aðeins sex stigum frá fallsæti og síðasti leikur Loga var 3-3 jafnteflisleikur við nýliða Hauka í fyrrakvöld.

„Það býr miklu meira í þessu liði og óánægjan snýst um það að úrslitin hafa ekki verið okkur í hag. Staðan er ekki góð í töflunni og menn töldu að þetta væri niðurstaða sem væri best fyrir liðið. Ég get verið svekktur að fara frá þessu eins og staðan er núna en ég er stolltur að öðru leyti. Mér finnst ég hafa unnið ágætisstarf fyrir þetta félag," sagði Logi.

Rúnar Kristinsson tekur við af Loga en það var í starfssamningi hans sem yfirmanns knattspyrnumála að taka við liðinu við svona aðstæður. „Ég ætla ekki að skorast undan þeirri ábyrgð sem ég skrifaði undir á sínum tíma. Ég tel mig alveg vera tilbúinn að klára þetta tímabil fyrir félagið og hef Pétur Pétursson áfram með mér í þessu. Við vinnum þetta saman. Ég er búinn að vinna náið með Loga hingað til og ég þekki þennan hóp mjög vel," sagði Rúnar.

„Það er mun styttra niður en upp á við í töflunni. Menn eru samt ekkert að spá í töfluna í dag. Við eigum ærin verkefni fram undan. Við byrjum á þessum Evrópuleik og svo verður mjög erfiður leikur fyrir okkur á Selfossi þegar við komum heim," segir Rúnar en fyrsti leikur hans sem þjálfari er á móti hinu sterka úkraínska liði Karpaty Lviv.

„Við förum út á miðvikudaginn og komum heim á föstudaginn. Þetta verður stutt og hnitmiðuð ferð. Við vitum að þetta er gríðarlega erfitt verkefni en við munum reyna að nýta það sem jákvæðan punkt í þessu ferli. Við ættum að geta nýtt tímann á ferðalaginu og á hótelinu til að spjalla saman og fara yfir hlutina til þess að stilla strengina í réttan tón," segir Rúnar sem ætlar sér að ná miklu meira út úr liðinu.

„Við eigum fullt af góðum knattspyrnumönnum en hugurinn þarf að fylgja. Menn þurfa að vera tilbúnir að leggja sig fram hver einn og einasti. Það er það sem er brýnast í stöðunni okkar í dag að fá alla til að fórna sér og hlaupa og berjast í 90 mínútur fyrir KR. Það er það sem maður þarf að ná í gegn," sagði Rúnar Kristinsson um nýja starfið.

„Ég ætlaði að vera hættur þessu þegar kallið kom frá KR 2007 því ég er búinn að reyna allt í íslenskum fótbolta. Mér fannst þetta mjög ögrandi verkefni sem það var. Ég vissi að ég væri í heitu sæti með að vera þjálfari hjá KR," sagði Logi og það sýnir líka þróun mála hjá þjálfurum KR eins og sjá má í töflu hér til hliðar.

„Það sem mér finnst persónulega leitt fyrir annars þetta ágæta félag er að það er nánast alveg nákvæmlega sama hvaða maður kemur þarna að verki sem þjálfari. Ég held að það hafi ekki einn einasti maður þjálfað þetta lið á undanförnum árum sem ekki hefur þurft að fara annaðhvort vegna lélegs árangurs eða einhver læti og leiðindi komið í kjölfarið," segir Logi.

„Ég ber ekki kala til nokkurs manns hvort sem er í leikmannahópnum, í knattspyrnudeild KR eða meðal samstarfsmanna minna. Það er ekkert út á samstarfið að setja því það eru fyrst og fremst úrslitin sem féllu ekki með okkur og það er ástæðan fyrir þessu. Mér finnst það leitt fyrir félagið að þetta skuli ávallt þurfa að enda með þessum hætti. Ég held að ég eigi tiltölulega langa starfsævi hjá KR miðað við þá þjálfara sem hafa verið á undan mér," sagði Logi að lokum og tölfræðin sýnir það líka svart á hvítu því enginn þjálfari hefur stýrt KR-liðinu í fleiri deildarleikjum í röð en Logi.

Síðustu fimm þjálfarar KR*

(Hlutfall stiga innan sviga)

Logi Ólafsson

Stýrði liðinu í 62 leikjum (58 prósent)

Sagt upp störfum 19. júlí 2010

KR í 9. sæti með 13 stig í 11 leikjum

Teitur Þórðarson

Stýrði liðinu í 29 leikjum (43 prósent)

Sagt upp 29. júlí 2007

KR í 10. sæti með 7 stig í 11 leikjum

Magnús Gylfason

Stýrði liðinu í 12 leikjum (36 prósent)

Sagt upp 26. júlí 2005

KR í 6. sæti með 13 stig í 12 leikjum

Willum Þór Þórsson

Stýrði liðinu í 54 leikjum (56 prósent)

Sagt upp í lok tímabils, átti eftir 2 ár af 5 ára samningi

KR endaði í 6. sæti

Pétur Pétursson

Stýrði liðinu í 25 leikjum (59 prósent)

Sagði upp 26. júní 2001

KR í 8. sæti með 7 stig úr 7 leikjum

* Hér eru ekki meðtaldir þjálfarar sem hafa tekið við á miðju tímabili en ekki haldið áfram. Það eru þeir David Winnie (2001) og Sigursteinn Gíslason (2005).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×