Innlent

Dæmdum lögregluþjóni verður ekki vikið úr starfi

Valur Grettisson skrifar
Ríkislögreglustjóri sá ekki forsendur til þess að víkja Garðari úr starfi.
Ríkislögreglustjóri sá ekki forsendur til þess að víkja Garðari úr starfi.

Lögregluþjóninum Garðari Helga Magnússyni verður ekki vikið frá störfum eftir að hafa verið dæmdur til skilorðsbundinnar refsingar í Hæstarétti Íslands fyrir að fara offari við skyldustörf.

Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi Guðjónssyni, yfirlögregluþjóni hjá Ríkislögreglustjóra, þá var málið skoðað og komist að þeirri niðurstöðu að það væru ekki forsendur til þess að víkja honum úr starfi.

Garðar Helgi var ákærður fyrir að fyrir brot í opinberu starfi og líkamsárás með því að hafa að morgni sunnudagsins 18. janúar 2009 farið offari við framkvæmd lögreglustarfans og ekki gætt lögmætra aðferða.

Í ákæruskjali sagði að hann hefði, sem stjórnandi lögregluaðgerðar, fyrirskipað öðrum lögreglumanni að aka með handtekinn mann, fæddum 1987, frá Austurstræti út á Granda í Reykjavík þar sem maðurinn var skilinn eftir.

Sjálfur sagði hann fyrir rétti að maðurinn hefði verið með ólæti og honum hefði verið ekið þangað í því skyni að róa hann niður.

Þá á lögreglumaður að hafa á leiðinni út á Granda þrýst hné sínu á háls mannsins þar sem hann lá handjárnaður í tökum lögreglu á maganum á gólfi lögreglubifreiðar. Maðurinn hlaut marbletti aftan á hálsinn vegna aðfara lögreglunnar. Hann var sýknaður af þeim lið.

Í dómi Hæstaréttar segir hinsvegar að Garðar hefði verið sakfelldur fyrir að hafa farið offari við framkvæmd lögreglustarfa og ekki gætt lögmætra aðferða.

Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að það sé mælt fyrir um að handtekinn maður sé færður á lögreglustöð eða annan stað þar sem lögregla hefur aðstöðu. Eigi þetta við ef honum sé ekki þegar sleppt.

Garðari var aldrei vikið úr starfi á meðan málið fór sína leið í dómskerfinu. Refsingu verður frestað haldi hann almennt skilorð í tvö ár.


Tengdar fréttir

Dæmdur lögreglumaður enn við störf

Garðar Helgi Magnússon, lögreglumaður, sem fundinn var sekur um að hafa farið offfari við handtöku er enn við störf hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort honum verður vikið úr starfi. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir það í höndum ríkislögreglustjóra hvort Garðar Helgi starfar áfram sem lögreglumaður.

Lögreglumaður dæmdur í Hæstarétti

Lögreglumaðurinn Garðar Helgi Magnússon var dæmdur sekur í Hæstarétti í dag og var því sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur snúið við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×