Innlent

„Lét“ 13 ára stúlku hafa við sig samræði

Erla Hlynsdóttir skrifar
Rannsókn var hafin að frumkvæði foreldra stúlkunnar
Rannsókn var hafin að frumkvæði foreldra stúlkunnar Mynd úr safni
23 ára karlmaður var í gær dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn 13 ára stúlku. Maðurinn játaði brotið sem átti sér stað í mars á þessu ári. Í Héraðsdómi Reykjavíkur var maðurinn dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi.

Brotið sem maðurinn játaði, samkvæmt ákæru er að hafa „látið A, þá 13 ára, hafa við sig samræði "

Rannsókn málsins hófst að frumkvæði foreldra stúlkunnar daginn eftir atvikið. Þann sama dag var tekin skýrsla af manninum sem játaði brotið. Skýrsla var tekin af brotaþola í Barnahúsi hálfri annarri viku síðar.

Fyrir dómi var lagt fram bréf barnalæknis sem hitti stúlkuna bæði fyrir og eftir atvikið.

Í niðurlagi bréfsins segir:

„Í stuttu máli sagt: Kvíða- og þunglyndiseinkenni sem höfðu verið til staðar í langan tíma hjöðnuðu algjörlega með lyfja- og huglægri atferlismeðferð. Ný einkenni og annarrar tegundar sem falla undir áfallastreituröskun komu fram eftir meint kynferðislegt ofbeldi um mánaðamótin febrúar/mars 2010 og við síðasta eftirlit var greiningarskilyrðum enn fullnægt þó að ástandið væri skárra."

Fyrir hönd stúlkunnar var krafist 800 þúsund króna í miskabætur en í dómi kemur fram að sátt hafi náðst um að maðurinn greiði 600 þúsund krónur í bætur. Því kom sú krafa ekki til kasta dómara.

Í dómi er tekið fram að maðurinn hefur ekki áður sætt refsingu.

„Hann hefur játað brot sitt greiðlega og var samvinnufús við rannsókn málsins. Brot hans er réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru. Refsing er í samræmi við dómvenju og fyrirmæli 202. gr. hegningarlaga ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Þar sem ákærði hefur játað brot sitt greiðlega, samþykkt að greiða bætur og ekki áður sætt refsingu þykir mega skilorðsbinda refsingu hans. Skilorðstími ákveðst þrjú ár," segir þar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×