Innlent

Enn allt óvíst um afstöðu forsetans

Höskuldur Kári Schram skrifar
Enn liggur ekki fyrir hvort forseti Íslands hyggst staðfesta lög um ríkisábyrgð vegna Icesave reikninga Landsbankans. Þingmaður Sjálfstæðisflokks segir að áframhaldandi óvissa þjóni engum tilgangi og telur æskilegt að forsetinn taki ákvörðun sem fyrst.

Forsetinn hefur nú tekið sér rúmlega þrjá daga í umþóttunartíma en Alþingi samþykkti Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar á miðvikudag.

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vintri grænna og varaformaður fjárlaganefndar, sagði í fréttum stöðvar tvö í gær að áframhaldandi óvissa þjónaði engum tilgangi. Undir þetta tekur Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks. „Ég tel ekki gott að þetta dragist á lengi. Þetta býr til mikla óvissu og ég teldi æskilegra að þessi ákvörðun lægi fyrir," segir Pétur.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, vonast til þess að forsetinn nýti tímann til að kynna sér ölll gögn málsins.„Ég held að það sé jákvætt að forsetinn taki sér þennan tíma. Það er ástæða fyrir því að við börðumst jafn harkalega gegn því að þesi samningur væri samþykktur. Við teljum að þetta sé stórhættulegt fyrir íslenska þjóð og ég held að flestir séu farniar að átta sig á því og vonandi er forsetinn bara að kynna sér öll rökin í málinu," segir Höskuldur.

Pétur Blöndal telur ekki að það muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér ef forsetinn staðfestir lögin ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×