Enski boltinn

Tevez fundar með City á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lætin í Tevez hafa ekki skilað miklu.
Lætin í Tevez hafa ekki skilað miklu. Nordic Photos / Getty Images

Carlos Tevez er byrjaður að æfa á ný með Manchester City eftir að hafa lagt fram beiðni um að verða seldur frá félaginu. Beiðninni var hafnað en Tevez mun á morgun funda með Roberto Mancin knattspyrnu­stjóra um framtíð sína hjá félaginu.

Tevez mun ekki spila með City gegn Juventus í Evrópudeild UEFA í kvöld en Mancini mun hafa tekið þá ákvörðun fyrir síðustu helgi enda er leikurinn í kvöld merkingarlaus.

Kia Joorabchian, umboðsmaður Tevez, sagði við enska fjölmiðla í gær að Tevez myndi haga sér fagmannlega þrátt fyrir allt og spila áfram með liðinu yrði þess óskað.

Það verður því framhald á þessari jólasögu Tevez en forráðamenn Man. City hafa sýnt mikla hörku í málinu. Neita að selja leikmanninn og hafa jafnvel hótað lögsókn ef leikmanninum dettur í hug að leggja skóna á hilluna eins og einhverjir fjölmiðlar hafa haldið fram. Málið þarf þó að leysa og vilja forráðamenn City leysa það fyrr frekar en síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×