Íslenski boltinn

Þurfa að sýna að þeir séu verðugir þess að spila í KR-búningnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Valli
Kristinn Kjærnested, formaður Knattspyrnudeildar KR, segir það hafa verið sameiginlega niðurstöðu stjórnar og Loga Ólafssonar um að hann hætti þjálfun liðsins.

„Menn ræddu málin eftir leikinn í gær og aftur í morgun. Það var samneiginleg niðurstaða að þetta væri best fyrir KR í ljósi stöðu liðsins. Við erum langt frá toppnum og það sem verra er að við erum aðeins sex stigum frá fallsæti. Það er ekki það sem menn lögðu upp með inn í þetta mót," sagði," sagði Kristinn Kjærnested formaður Knattspyrnudeildar KR.

„Menn geta alltaf velt fyrir sér tímapunktinum en Logi hefur haft fullan stuðning stjórnarinnar þau ár sem hann hefur verið hér. Hann tók við liðinu í mjög erfiðum málum þegar hann kom til félagsins og það hefur margt gott starf verið unnið hér af Loga Ólafssyni. Hann skilaði titli og við höfum ekkert annað en gott um hann að segja," sagði Kristinn.

„Menn þurfa að taka ákvörðun um það sem er best fyrir KR og það var sameiginlegt að mat að það væri að hann myndi hætta þjálfun. Menn standa og falla með því. Þetta er orðinn hlutur og það þarf bara að halda áfram," sagði Kristinn. Rúnar Kristinsson mun taka við þjálfun KR-liðsins.

„Rúnar er yfirmaður knattspyrnumála hérna og það er í starfslýsingunni hjá honum að hann kemur að hlutum hér. Það má samt ekki líta fram hjá því að það eru leikmenn inn á vellinum sem þurfa heldur betur að fara bretta upp á ermarnar og fara sýna það að þeir séu verðugir þess að spila í KR-búningnum," sagði Kristinn.

„Við lítum fyrst og fremst á það að það eru sex stig í fallsæti. Það er bara gamla klisjan um að taka einn leik fyrir í einu og næsti deildarleikur er á móti Selfossi en í millitíðinni erum við í Úkraínu á móti feykilega sterkum andstæðing. Númer eitt tvö og þrjú er að byrja að safna inn stigum í þeim leikjum sem framundan eru," sagði Kristinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×