Íslenski boltinn

Auðun: Var trú og sjálfstraust í liðinu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Auðun Helgason, varnarmaður Grindvíkinga, var ánægður með stigið sem Grindavík fékk í kvöld eftir 1-1 jafntefli við Stjörnuna. Gjorgi Manevski sem er nýgenginn í raðir Grindvíkinga tryggði þeim stig með marki á 88. mínútu.

„Við vitum ekkert hvernig þessi leikmaður er. Hann náði ekkert að æfa með okkur fyrir leikinn enda kom hann seint í gærkvöldi. En hann skoraði og það er frábært. Við þurfum bara að sjá hvað hann heitir og hvað hann getur," sagði Auðun Helgason, varnarmaður Grindvíkinga.

Auðun var ánægður með stigið. „Ég er mjög sáttur. Við lendum undir eins og alltaf en samt voru mikil batamerki á liðinu. Við fengum færi og vorum að spila ágætlega. Við héldum áfram allt til loka. Það var trú og sjálfstraust í liðinu. Það er samt eins og við þurfum 5-6 færi til að skora."

Ólafur Örn Bjarnason, þjálfari Grindvíkinga, er enn í Noregi en verður kominn fyrir næsta leik sem er grannaslagur gegn Keflavík. „Við erum í hrikalega erfiðum málum en nú sýndu menn karakter. Keflvíkingar eru mjög misjafnir og stundum er eins og þeir séu ekki að nenna þessu. En við skulum sjá hvað gerist," sagði Auðun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×