Innlent

Skuldamálin við Húnaflóa eitt það sorglegasta í hruninu

Fjármálaherra og bankastjóri Landsbankans segja báðir að skuldastaða sparisjóðseigenda við Húnaflóa sé eitt það sorglegasta sem komið hafi á þeirra borð. Hvorugur treystir sér til að lofa þeim neinni sérmeðferð umfram aðra skuldara.

Áætlað er að fjórða hvert heimili á starfssvæði sparisjóðs Húnaþings og Stranda sitji í illviðráðanlegu skuldafeni eftir að hafa tekið stórfelld lán til kaupa á stofnfjárbréfum, sem síðar hrundu í verði.

Um helmingur af kröfunum er í höndum Landsbankans. Ásmundur Stefánsson bankastjóri segir þetta mál eitt það sorglegasta sem hann hafi fengið inn á sitt borð vegna þess hvernig það hitti lítið byggðarlag hrikalega. Ásmundur gefur þó enga von um sérlausn, bankinn þurfi að gæta jafnræðis á milli viðskiptamanna. Hann telji þó fulla ástæða til að skoða hvort aðrir geti komið að þessu, eins og Byggðastofnun.

Sparisjóður Keflavíkur er hinn kröfuhafinn og þar segir Angantýr Valur Jónasson sparisjóðsstjóri þetta hryggilegt mál en sparisjóðurinn muni leggja sig fram um að reyna að leysa úr vanda þessara aðila.

Vegna sérstöðu málsins kalla ráðamenn í héraðinu eftir sérstakri byggðahjálp frá stjórnvöldum. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir þetta hörmulega sorgarsögu og "..eitt það dapurlegasta sem við sjáum í þessu græðgisvæðingarhruni, það er fólkið sem situr eftir svona statt".

Sem þáverandi stofnfjáreigandi í Sparisjóði Þórshafnar í nágrennis átti Steingrímur drjúgan þátt í að fella tillögu sem leitt hefði til samsvarandi hremminga þar. Hann segir að málið við Húnaflóa sé fyrst og fremst þeirra að leysa úr sem lánin veittu og þeirra sem skulda. Eftir atvikum, ef eitthvað sé hægt að gera á sameiginlegum grunni, ætli hann þó engu að hafna fyrirfram í þeim efnum. Það sé hins vegar vandasamt að fara inn í þetta nema þá sem hluta af einhverskonar almennri skuldaúrvinnslu og skuldaendurskipulagningu, samkvæmt almennum leikreglum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×