Enski boltinn

Wenger: Arsenal-liðið búið að losa um handbremsuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsenal-menn fagna einu marka sinna í gær.
Arsenal-menn fagna einu marka sinna í gær. Mynd/AP
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, fagnaði vel fyrsta sigri liðsins á Chelsea í tvö ár þegar Arsenal vann (Lundúna)toppslaginn 3-1 í gær. Wenger sér mikil þroskamerki á sínu liði sem er að reyna að vinna fyrsta titil félagsins í fimm ár.

„Fyrir tveimur árum fór Chelsea illa með okkur, við vorum að nálgast þessi lið á síðustu leiktíð og í útileikjunum á móti Chelsea og Manchester United á þessu tímabili þá fannst okkur við eiga að fá meira út úr leikjunum," sagði Arsene Wenger.

„Kannski spiluðum við þessa tvo leiki með handbremsuna aðeins á en við höfum lært af þeim leikjum. (Cesc) Fabregas talaði eitthvað um að við værum hræddir við að vinna en það er alltof stórt orð. Það var kannski eitthvað óöryggi í liðinu en það sást ekki í þessum leik," sagði Wenger.

Arsene Wenger kemur skilaboðum til sinna manna í gær.Mynd/AFP
„Við erum að sýna meiri karlmennsku í vetur og við látum ekki vaða yfir okkur lengur. Við höfum þroskast mikið á síðustu tveimur tímabilum. Það er erfitt að spá fyrir um meistaratitilinn en til þess að vinna hann þurfum við að sanna að við getum sýnt stöðugleika," sagði Wenger.

Arsenal er tveimur stigum á eftir taplausu liði Manchester United sem mætir liði Birmingham City í kvöld.

„Ég er ánægður með að við erum komnir fram í desember og við erum enn í kallfæri við United. Við erum ekki langt frá þeim og ég vona að sigurinn á Chelsea sannfæri mína menn um að þeir séu á réttri leið og fái þá til að vilja bæta sig enn meira," sagði Wenger að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×