Lífið

Leita að fyrirsætum í skólum

Erna Hrund farðar hér nemanda úr Kvennaskólanum, en Maybelline, Oroblu, Nude magazine og módelskrifstofan Elite leita að nýjum andlitum í menntaskólum landsins.mynd/jóhanna björg
Erna Hrund farðar hér nemanda úr Kvennaskólanum, en Maybelline, Oroblu, Nude magazine og módelskrifstofan Elite leita að nýjum andlitum í menntaskólum landsins.mynd/jóhanna björg
„Við erum að safna í myndabanka til að auðvelda okkur að finna krakka fyrir myndatökur,“ segir Erna Hrund Hermannsdóttir, förðunarfræðingur hjá Maybelline, en Maybelline, Oroblu, íslenska vefritið Nude magazine og módelskrifstofan Elite heimsækja menntaskóla landsins í leit að nýjum andlitum.

„Við byrjuðum á því að fara í Verzló og Kvennó í vikunni,“ segir Erna Hrund. „Markmiðið er svo að fara í sem flesta menntaskóla og jafnvel í háskólana eftir áramót.“ Hún segir þau ekki hafa rætt það að fara í grunnskólana. „Við erum að leggja áherslu á ákveðinn aldur, en það er aldrei að vita nema við kíkjum í tíunda bekkinn,“ segir Erna. Hún segir að ekki sé endilega verið að leita að fólki með þetta svokallaða fyrirsætuútlit. „Við erum að leita að alls konar krökkum, bæði stelpum og strákum.“

Fulltrúar frá Maybelline og Oroblu, Nude magazine og Elite mættu í menntaskólana tvo á þriðjudag og miðvikudag og tóku myndir af þeim sem vildu vera með. Erna segir myndatökurnar hafa gengið vonum framar. „Þetta gekk alveg ótrúlega vel. Það fengu allir létta förðun fyrir myndatökuna og svo var myndin tekin fyrir framan stórt plakat svo það leit út fyrir að hver og einn væri á forsíðu Nude magazine,“ segir Erna.

En fannst strákunum ekkert óþægilegt að láta farða sig? „Nei, alls ekki. Verzlingar eru svo „metró“, það var allavega ekkert mál að farða þá,“ segir förðunarfræðingurinn Erna Hrund.- ka





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.