Innlent

Þjóðkirkjan hrökk í vörn

Karl Sigurbjörnsson biskup segir kirkjuna hafa brugðist í málefnum kvennanna þriggja sem leituðu hjálpar vegna kynferðislegrar áreitni af hendi Ólafs Skúlasonar biskups. Hann vísar því á bug að hafa reynt að þvinga konurnar til að falla frá ásökununum. Biskup segir málið snúið og auðvelt sé að vera vitur eftir á. Hann segir þjóðkirkjuna hafa brugðist og greinilegt sé að ekki hafi verið komið konunum til hjálpar.

Biskup segist hafa gert sitt besta á sínum tíma til að hafa milligöngu milli kvennanna og biskups. Aðspurður hvers vegna málin hafi ekki verið tilkynnt til lögreglu segir hann að frekar ætti að beina spurningunni til kvennanna. Hann segir ásakanirnar á hendur Ólafi hafa komið sér verulega á óvart. „Ég var bara lítill sóknarprestur," segir hann. „Auðvitað vill maður ekki trúa svona. Það eru fyrstu viðbrögð allra manna að hrökkva í vörn. Vafalaust hefur kirkjan gert það í þessu máli."

Biskup segir greinilegt að fjöldi fólks upplifi að kirkjan sé að bregðast hlutverki sínu gagnvart almenningi. Varðandi skriðu úrsagna úr þjóðkirkjunni á síðustu dögum segir hann það vissulega segja sína sögu og sé vísbending um alvarlega stöðu kirkjunnar.

Varðandi ummæli Geirs Waage, sóknarprests í Reykholti, um að þagnarskylda presta gangi framar tilkynningaskyldu þeirra samkvæmt barnaverndarlögum, segir Karl mikilvægt að ítreka það að í hans huga sé það alveg á kristal­­tæru að prestar lúti lögum landsins og beri sérstakar skyldur til þess. Barnaverndarlögin séu æðri en lög og siðareglur einstakra embættisstétta. Geir þurfi að gera grein fyrir máli sínu og ummæli hans hafi verið afar óheppileg fyrir kirkjuna.

Biskup sendi frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla á sunnudag þar sem hann meðal annars sagði Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur hafa kært Ólaf Skúlason til saksóknara á sínum tíma sem ekki hefði talið efni til að birta ákæru í málinu. Raunin er sú að Ólafur kærði konurnar þrjár til saksóknara, sem aftur mæltist til þess við hann að fella málið niður. Karl birti leiðréttingu daginn eftir og baðst afsökunar á rangfærslunum.

„Þetta voru pennaglöp og fljótfærni. Vissulega stór mistök sem ég gerði og ég harma þau," segir Karl Sigurbjörnsson biskup.

sunna@frettabladid.is







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×