Innlent

Þrot Landsbankans sýnir gölluð álagspróf

Álagspróf Fjármálaeftirlitsins voru meingölluð og tóku ekki nægjanlegt tillit til áhrifa af lausafjárskorti á alþjóðlegum mörkuðum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en þar er gamli Landsbankinn notaður sem dæmi til að sýna fram á gölluð eftirlitskerfi banka um allan heim.

Landsbankinn, Kaupþing og Glitnir stóðust álagspróf Fjármálaeftirlitsins fram á síðasta dag. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í sinni skýrslu að álagspróf eftirlitsins hefðu verið ófullkomin.

Í nýrri vinnuskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er fjallað um veikleika álagsprófa um allan heim og er Landsbankinn notaður sem dæmi til að sýna fram á þá veikleika. Segir í skýrslunni að léleg álagspróf geti talið mönnum trú um að allt sé í lagi í efnahagslífinu enda þótt svo þurfi alls ekki að vera.

Skýrsluhöfundar komast að þeirri niðurstöðu að álagspróf Fjármálaeftirlitsins íslenska hafi verið meingölluð, þau hafi ekki tekið tillit til nógu margra þátta og ástæða hefði verið til að gera ráð fyrir þyngri áföllum, til dæmis alþjóðlegum lausafjárskorti og meiri lækkun verðbréfa.

Í skýrslunni segir að íslensku bankarnir hafi verið of stórir til að hægt væri að bjarga þeim, en að með betri álagsprófum og eftirliti hefði verið hægt að koma í veg fyrir að sú staða kæmi upp.

Lærdómar skýrslunnar eru þeir að álagspróf eigi að taka tillit til óhugsandi atburða í efnahagslífinu. Og að brýn þörf sé á að horfa lengra en aðeins á tölur í ársreikningum þegar meta á styrk banka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×