Lífið

Uppselt á tónleika Ólafs Arnalds víða um Evrópu

Ólafur Arnalds og hljómsveit í Þýskalandi. Hann ferðast með fjölmennt lið sem gerir útlit tónleikanna tilkomumeira.
Ólafur Arnalds og hljómsveit í Þýskalandi. Hann ferðast með fjölmennt lið sem gerir útlit tónleikanna tilkomumeira.
Ólafur Arnalds hefur verið í tæpan mánuð á tónleikaferðalagi um Evrópu. Allt hefur gengið eins og í sögu hjá Ólafi og föruneyti hans sem telur 11 manns.

„Við erum búin að leggja allt í þennan túr," segir tónlistar­maðurinn Ólafur Arnalds.

Ólafur var staddur í Ósló þegar Fréttablaðið hafði uppi á honum. Þar er hann ásamt ellefu manna föruneyti; hljóðfæraleikurum, tæknimönnum og róturum, en hann ferðast með sérhannaða ljósasýningu og myndbönd sem gera tónleikana tilkomumeiri. Ólafur hefur verið í þrjár vikur á ferðalagi og á tvær eftir. Hann kom fram ásamt hljómsveit í Park­teatret í Ósló fyrir helgi og kom síðan fram í Gautaborg í Svíþjóð.

„Við höfum verið bæði í þessum venjulegu löndum eins og Þýskalandi, Sviss, Ítalíu, Póllandi," segir Ólafur. „En einnig erum við búin að fara til Ungverjalands og Slóvakíu, sem var alveg geðveikt. Uppselt hefur verið á langflesta tónleika túrsins. Í Berlín var uppselt með 600 manns inni og langri biðröð fyrir utan, fólk sem komst ekki inn."

Ólafur hefur gefið út fimm plötur. Sú síðasta, …And They Have Escaped the Weight of Darknes, kom út á árinu og hefur fengið afar lofsamlega dóma. Breska ríkis­útvarpið BBC gefur henni til að mynda átta af tíu mögulegum, tónlistartímaritið Spin gefur henni fjóra af fimm og indíbiblían Pitchfork gefur henni sjö af tíu.

Þá hafa tónleikar Ólafs hlotið góðar viðtökur og hann finnur fyrir því. „Þetta gengur gríðarlega vel og við heyrum á hverjum degi frá tæknifólkinu hér að þetta sé eitt það flottasta sjó sem það hefir unnið við," segir Ólafur.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.