Íslenski boltinn

Arnar: Grátlegt að vinna ekki

Jón Júlíus Karlsson skrifar

„Það er grátlegt að vinna ekki þennan leik eftir að hafa spilað mjög vel í fyrri hálfleik,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, besti leikmaður vallarins á Vodafone-vellinum í kvöld þar sem Haukar gerðu 3-3 jafntefli gegn KR.

Arnar var afar sprækur í kvöld og jafnaði leikinn úr vítaspyrnu auk þess að leggja upp afar laglegt mark.

„Það er jákvætt að við erum ekki að tapa og erum að spila mjög flottan fótbolta,“ segir Arnar sem klikkaði ekki á vítaspyrnu í kvöld líkt og á dögunum. „Það hefur ekki komið fyrir ennþá að ég hafi klikkað á tveimur vítaspyrnum í röð og var mjög ljúft að sjá boltann í netinu.“

Haukar hafa styrkt leikmannahópinn í leikmannaglugganum og lýst Arnari vel á liðsstyrkinn.

„Við erum búnir að fá Skota og Spánverja sem líta vel út. Við þurftum að styrkja hópinn því að við vorum með ungan bekk í dag og það eru erfiðir leikir framundan,“ segir Arnar. Hafnfirðingar bíða í ofvæni eftir næstu umferð því þá mætast FH og Haukar í Kaplakrika.

„Við höfum verið að ná góðum jafnteflum gegn sterkum liðum og það hjálpar okkur að það er mikið að gera hjá stóru liðinum. KR-ingar virkuðu þungir í kvöld og ég get rétt ímyndað mér hve ljúft það yrði að ná fyrsta sigrinum gegn FH. Við Bjarki bróðir höfum einnig aldrei leikið gegn hvor öðrum og get ekki beðið eftir því,“ sagði Arnar glaðbeittur á svip.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×