Íslenski boltinn

KR borgaði upp samning Loga - Gaui Þórðar ekki í myndinni

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Rúnar Kristinsson á sinni fyrstu æfingu með KR í gær.
Rúnar Kristinsson á sinni fyrstu æfingu með KR í gær. Fréttablaðið/Rósa
Rúnar Kristinsson stýrði sinni fyrstu æfingu hjá KR síðdegis í gær. Hann tók við liðinu af Loga Ólafssyni daginn eftir 3-3 jafnteflið við Hauka en fyrsti leikur hans með liðið er seinni leikurinn gegn Karpaty frá Úkraínu á morgun. Liðið flaug út í nótt en fyrri leiknum lauk með 3-0 sigri Karpaty. Samningur Loga við KR gilti út tímabilið. „Það þurfti ekki að komast að neinu sérstöku samkomulagi um peningamál við Loga, við borgum honum bara út samninginn sem gildir til 30. september eins og venjan er,“ segir framkvæmdastjóri KR, Jónas Kristinsson, en Logi var á sínu síðasta samningsári í Vesturbænum. Leit að nýjum þjálfara KR er þó ekki hafin. „Við höfum nægan tíma. Við erum bara að klára þessi mál núna og Rúnar stýrir liðinu út þetta tímabil. Eftir það tekur við frí áður en undirbúningstímabilið byrjar svo tíminn er nægur,“ sagði Jónas. Hann sagði jafnframt að enginn óskalisti hefði verið teiknaður upp en orðrómur um að Guðjón Þórðarson væri að bíða eftir að starfið losnaði hefur verið lengi í gangi. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kemur hann þó ekki til greina sem næsti þjálfari KR. Samkvæmt sömu heimildum vilja KR-ingar ráða sannan Vesturbæing og þá helst mann sem hefur spilað með félaginu. Þeir sem þykja einna helst til greina eru Heimir Guðjónsson sem nú þjálfar FH, Gunnlaugur Jónsson sem er hjá Val, Guðmundur Benediktsson sem er hjá Selfoss, Sigursteinn Gíslason sem er hjá Leikni, og Óskar Hrafn Þorvaldsson sem áður lék með KR og þjálfaði meðal annars yngri flokka hjá félaginu til marga ára. Þá er Gunnar Kristjánsson ekki á leiðinni frá KR í FH strax, hann fór liðinu til Úkraínu í nótt. “Stjórnir FH og KR þurfa lengri tíma til að ræða saman. Ég mun ræða betur við FH-inga þegar við komum heim en þangað til gef ég mig allan í verkefnin framundan hjá KR,” sagði Gunnar við Fréttablaðið í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×