Einn hefur verið handtekinn í mótmælunum við Seðlabankann. Átök brutust út nú fyrir skömmu þar sem lögreglan yfirbugaði einn mótmælandann. Lögreglan er klædd í hlífðarvesti og hefur aukin harka færst í mótmælin.
Blaðamaður Vísis, sem er staddur við Seðlabankann, segir nú um hundrað manns berja á trumbur fyrir framan bankann. Mótmælin fóru friðsamlega fram í morgun en það sem hefur nú breyst er að fjöldi lögreglumanna er mættur á svæðið. Um tíu lögreglumenn standi nú vörð um aðalinngang bankans og eru þeir útbúnir hlífðarvestum.
Nú fyrir skömmu brutust út átök þar sem einn mótmælanda neitaði að fara að tilmælun lögreglunnar. Lögreglan bjó til múr í kringum hann, þeir tókust á við hann og handtóku. Búið er að færa hann í lögreglubíl og flytja af vettvangi.