Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia segir að ekkert sé slegið af öryggiskröfum á Aðaldalsvelli við Húsavík en þangað stendur til að vísa Akureyrarflugi dagsins vegna verkfalls Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Slökkviliðsbíll hefur verið fluttur frá Bakkaflugvelli til þess að uppfylla öryggiskröfur og munu starfsmenn Isavia manna hann.
Slökkviliðsmenn segja í yfirlýsingu að með þessu sé verið að slá „verulega af öryggiskröfum sem alla jafna séu gerðar í farþegaflugi" og að starfsmennirnir hafi aðeins fengið stutta þjálfun í notkun slökkvibílsins.
Hjördís segir hins vegar að starfsmennirnir hafi fengið alla þá þjálfun sem þörf sé á og að í hvívetna sé farið eftir öryggiskröfum.
Félagaaðild ekki gefin upp
Slökkviliðsmenn hafa ennfremur hvatt formenn þeirra stéttarfélaga sem hinir meintu verkfallsbrjótar tilheyra að skerast í leikinn. Aðspurð segir Hjördís að ekki verði gefið upp hvaða félögum mennirnir tilheyri, aðeins að þeir séu starfsmenn Isavia. Heimildir Vísis herma þó að ekki sé um starfsmenn FRR, félags flugmálastarfsmanna ríkisins, að ræða.
Búist er við fyrstu vélinni til Húsavíkur um tvöleytið.