Innlent

Bótasjóði breskra togarasjómanna lokað

Her- og varðskip fönguðu athyglina í þorskastríðunum. Fjölmargir sjómenn misstu atvinnu sína í kjölfarið.
Her- og varðskip fönguðu athyglina í þorskastríðunum. Fjölmargir sjómenn misstu atvinnu sína í kjölfarið.

 Breska ríkisstjórnin hefur lokið bótagreiðslum til breskra togarasjómanna sem misstu atvinnuna í kjölfar þorskastríðanna við Íslendinga á áttunda áratugnum. Heildargreiðslur til hundraða sjómanna frá Aberdeen, Grimsby og Hull nema um 60 milljónum punda, eða rúmlega ellefu milljörðum króna.

Þetta var tilkynnt í breska þinginu í gær af atvinnumálaráðherranum Ed Davey. Bótagreiðslukerfinu var komið á fót af stjórn Verkamannaflokksins sem nýlega lét af völdum. Var því komið á eftir langa baráttu bresku sjómannasamtakanna fyrir því að sjómönnum yrði bættur atvinnumissirinn. Þess ber að geta að þá höfðu útgerðir fengið ríflegar bætur eftir að hluta breska togaraflotans var fargað vegna verkefnaleysis.

Þingmaðurinn Frank Doran vakti hins vegar athygli á því á þinginu í gær að margt benti til þess að mistök í stjórnsýslu hefðu valdið því að hópur sjómanna hefði ekki fengið bætur eins og þeim ber. Þingmenn frá Hull og Grimsby vinna að athugun á því hvort ástæða sé til þess að bíða með að leggja kerfið af. Þegar liggja fyrir erindi frá 300 sjómönnum sem hafa farið fram á bætur en ekki fengið.

Bætur til einstakra sjómanna geta numið allt að 20 þúsund pundum eða jafnvirði tæplega 3,8 milljóna króna. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×