Enski boltinn

Sir Alex öskureiður yfir ólöglegu jöfnunarmarki Birmingham - dæmið sjálf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, taldi sitt lið vera rænt tveimur stigum í 1-1 jafnteflinu á móti Birmingham í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. Stigið nægði til að taka toppsætið af nágrönnunum í Manchester City á markatölu en jöfnunarmark heimamanna kom á 89. mínútu leiksins og var að margra mati ólöglegt.

Lee Bowyer tryggði Birmingham eitt stig en Ferguson sagði að dómarinn Lee Mason hefði getað dæmt tvær aukaspyrnur á leikmenn Birmingham áður en boltinn barst til Bowyer sem var síðan hugsanlega rangstæður.

„Þetta var bæði hendi sem og brot á miðverðinum. Hann fór beint í gegnum hann. Ef dómarinn sér ekki svona hluti hvaða möguleika eigum við þá. Í svona mikilvægum leik þá gerir maður kröfu um að dómarinn sjái svona brot," sagði Sir Alex Ferguson öskureiður eftir leikinn.

Það er hægt að sjá öll mörkin og áhugaverðustu atvikin úr leikjum enska boltans inn á Vísi og þar á meðal er hægt að skoða þetta umdeilda atvik með því að smella hér fyrir ofan en þar eru svipmyndir frá leik Birmingham og Manchester United.

„Ég get ekki kvartað yfir mínu liði. Þeir börðustu vel eftir aðeins tveggja daga hvíld. Strákarnir hlupu af sér sokkana og því voru þessi úrslit mjög svekkjandi fyrir þá," sagði Ferguson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×