Innlent

Hreiðar Már gagnrýnir FME í bréfi til forsætisráðherra

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, fullyrðir í bréfi til forsætisráðherra að breska fjármálaeftirlitið hafi komist að því að hvorki hann né aðrir stjórnendur hafi brotið lög í starfi sínu fyrir dótturfélag bankans í London. Hann hvetur stjórnvöld til aðgerða vegna lélegra vinnubragða íslenska fjármálaeftirlitsins.

Bréf Hreiðars Más var póstlagt í Lúxemborg fyrir þremur dögum og sent í hingað í stjórnarráðshúsið, stílað á forsætisráðherra. Fréttastofa hefur bréfið undir höndum en í því gagnrýnir Hreiðar Már rannsóknaðferðir Fjármálaeftirlitsins harðlega.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Árni Páll Árnason, viðskiptaráðherra, Gunnar Andersen, forstjóri FME og Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari fengu afrit af bréfinu.

Efni bréfsins er rannsókn breska fjármálaeftirlitsins, FSA, á starfsemi Kaupthing Singer og Friedlander. Hreiðar Már segir mikilvægt að íslensk stjórnvöld séu upplýst um niðurstöðu rannsóknarinnar. Hún sé sú að

ekki sé talið að hann né aðrir stjórnendur bankans hafi brotið lög í starfi sínu fyrir dótturfélag bankans í London.

Í bréfinu ber Hreiðar Már saman vinnubrögð breska fjármálaeftirlitsins og þess íslenska. Hann segir að sem fyrrverandi forstjóri Kaupþingssamstæðunnar og stjórnarmaður í dótturfélaginu í London hafi hann ásamt öðrum stjórnendum mætt í fjölda yfirheyrslna hjá FSA. Hins vegar hafi FME ekki rætt við hann um eitt eða neitt í aðdraganda hrunsins, þrátt fyrir miklar og alvarlegar ásakanir í garð stjórnenda bankans.

Hann segir að starfsmenn FME hafi eytt miklum tíma í að fara í gegnum gögn og tölvupósta að því er virðist fyrst og fremst til að leita að meintum glæpum. Hreiðar Már segist telja að eftirlitið hafi dregið af upplýsingunum alrangar ályktar og í kjölfarið sett fram gríðarlega alvarlegar ásakanir án þess að hafa á nokkru stigi málsins rætt við þá sem ávirðingarnar beinist að.

Hann segist sannfærður um að íslenska fjármálaeftirlitið verði aldrei trúverðugt eða öflugt með vinnubrögðum af því tagi sem virðist viðgangist þar innan veggja í dag. Hann segir að munurinn á fagmennsku og metnaði þessara tveggja fjármálaeftirlita sé sláandi og segist vona að bréf sitt veki íslensk stjórnvöld til umhugsunar og aðgerða.

Nánar verður greint frá efni bréfsins í Fréttablaðinu á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×