Innlent

Evrópukönnun: Vantar mikilvæga spurningu

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur og forstöðumaður Evrópufræðaseturs.
Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur og forstöðumaður Evrópufræðaseturs.
Sextíu prósent þjóðarinnar eru andvíg aðild að Evrópusambandinu samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Eiríkur Bergmann Eiríksson, stjórnmálafræðingur, segir þetta í samræmi við þá þróun sem átt hefur séð stað síðan Icesave málið kom upp, hins vegar vanti í könnunina þá mikilvægu spurningu hve margir séu hlyntir aðildarviðræðunum sjálfum.

Aðeins tuttugu og sex prósent þjóðarinnar segjast hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu, samkvæmt könnuninni sem Ríkissjónvarpið greindi frá í kvöld. Andstaða við aðild er áberandi mest meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri Grænna. En mikill meirihluti Samfylkingarfólks er hlynnt aðild.

Eiríkur Bergmann segir tvennt um þessa könnun að segja. „Í fyrsta lagi er ljóst að Íslendingar eru andvígir aðild að Evrópusambandinu og þessi könnun lýsir því. Það er í samræmi við þá þróun sem við höfum séð undanfarnar vikur og mánuði. En það vantar eina vídd og það er spurningin hvort fólk sé með eða á móti aðildarviðræðunum."

Eiríkur segir þá spurning mikilvæga, til dæmis til að geta tekið afstöðu til ályktunar Sjálfstæðisflokksins á Landsfundi flokksins á dögunum en þar var stefna flokksins sett á að draga umsókn þjóðarinnar til baka.

„Eftir að Icesave málið kom upp þá hefur þetta verið þróunin, Icesave keyrði evrópusambandsumræðuna í kaf og gerði Íslendinga afhuga sambandinu, hins vegar væri áhugavert að sjá svarið við þeirri spurningu hve margir séu enn hlyntir aðildarviðræðunum sjálfum. Það vantar," segir Eiríkur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×