Innlent

Launin geta fælt frá

Störfum í réttarkerfinu hefur verið fjölgað um um það bil eitt hundrað til að mæta auknu álagi við rannsókn og saksókn og í dómstólum vegna hruns bankanna.

Til margra þessara nýju starfa hafa ráðist starfsmenn frá öðrum opinberum embættum. Fólk hefur flust á milli starfa og skilið eftir sig skörð.

Enn er í ráði að fjölga störfum. Til dæmis er rætt um að fjölga þurfi tímabundið stöðum hæstaréttardómara um átta.

Forsetar lagadeilda Háskóla Íslands og Háskólans á Bifröst og formaður Lögfræðingafélagsins óttast að hið opinbera geti ekki keppt við einkageirann um hæfasta starfsfólkið. Því ráði lág laun hjá ríkinu í samanburði við það sem býðst á almenna markaðnum auk þess sem álagið sé mikið.

Róbert R. Spanó, forseti lagadeilda HÍ, segir vandamál að fá hæft fólk til að gegna opinberum embættum. "Það er áhyggjuefni hvort opinbera launakerfið sem slíkt sé í stakk búið til að krækja í þá lögmenn sem hafa burði til að sinna þessum störfum."

Kristín Edwald, formaður Lögfræðingafélagsins, segir að ekki sé nægilega vel búið að dómurum og saksóknurum, "sem leiðir til þess að fólk með reynslu og þekkingu sækist ekki eftir þessum störfum."

Bryndís Hlöðversdóttir, forseti lagadeildarinnar á Bifröst, er sömu skoðunar en sér líka tækifæri í stöðunni. Auka beri fjölbreytileika í mikilvægum embættum.

"Ég tel til dæmis að markvisst þurfi að vinna gegn þeirri tilhneigingu að ráða helst karla í Hæstarétt," segir Bryndís.- bþs /






Fleiri fréttir

Sjá meira


×