Innlent

Skiptar skoðanir um kattahald í bæjarráði Kópavogs

Boði Logason skrifar
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi.
Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi.
„Ég fylgi þessu máli stíft eftir, ég lofa því. En ef ég á að vera raunsæ þá verður engin ákvörðun tekin fyrr en í september þegar að bæjarstjórn kemur aftur saman," segir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi. En hún sagði í samtali við Vísi fyrr í mánuðinum að hún myndi berjast fyrir samræmdum reglum um kattahald í bænum. Vísir hefur fjallað mikið um lausagöngu katta og villikatta.

Guðríður segist hafa lagt reglurnar til kynningar í síðustu viku og býst við því að málið verði tekið upp á bæjarráðsfundi á fimmtudaginn í næstu viku. „En mér heyrist tónninn vera þannig ef satt skal segjast, að það endi með því að við þurfum að taka þetta fyrir í bæjarstjórn í september. Og þá vonandi verður meirihluti fyrir því, en þetta gengur algjörlega þvert á flokka. Það eru skiptar skoðanir í mínum flokki (Samfylkingu) og það eru skiptar skoðanir í Sjálfstæðisflokknum, sitt sýnist hverjum," segir Guðríður. En bæjarráð er starfandi á meðan bæjarstjórn er í sumarleyfi.

Hún segir að ef reglurnar verði samþykktar í bæjarstjórn í september þá þurfi að auglýsa reglurnar í stjórnartíðindum og það tekur þrjá mánuði eða 90 daga. „Ef vel gengur gætu þessar reglur komið í gegn fyrir áramótin," segir Guðríður.

„Í mínum huga eiga að vera reglur um kattahald alveg eins og það eru reglur um hundahald. Það eru reglur um húsdýr, við erum ekki að leyfa lausagöngu sauðfjár innan bæjarmarkanna. Ef þú myndi fá þér kind, er ég alveg viss um að nágrannarnir yrðu ekki ánægðir ef hún væri að skottast út um allan bæ."

Hún segist hafa fengið mikil viðbrögð frá fólki eftir fréttir Vísis af málinu. „Ég er búin að fá mikil viðbrögð og hef fengið fjöldann allan af símtölum og tölvupóstum."


Tengdar fréttir

Ætlar að berjast fyrir reglum um kattahald

„Nú er bara að bretta upp ermarnar og keyra þetta mál í gegn," segir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi. Guðríður hefur í mörg ár barist fyrir reglum um kattahald í bænum og segir nú vera tíma til aðgerða.

Bíl stolið á Kársnesi þegar kettinum var hleypt út

„Þetta hefur örugglega gerst undir morgun þegar ég hleypti honum út um fimmleytið,“ segir Kristrún Júlíusdóttir kattaeigandi á Kársnesi í Kópavogi. Það var í morgun þegar Kristrún hleypti kettinum sínum út til að pissa að einhver óprúttinn aðili fór inn í íbúðina hennar og stal bíllyklunum af bílnum hennar og ók á honum í burtu. Kristrún skildi litla rifu eftir á útidyrahurðinni á meðan kisi fór út að pissa eins og hann gerir vanalega.

Kattafár á Kársnesi: Heimilisfaðir handsamar villikött

Villiköttur braust inn á heimili fjölskyldu í Kópavoginum, áreytti heimilisköttinn og skemmdi innanstokksmuni. Engar reglur eru um kattahald í Kópavoginum og þurfti fjölskyldan sjálf að handsama köttinn og koma á dýraspítala.

Kattafár á Kársnesi: Ófrísk kona bitin og klóruð

„Ég er orðinn frekar ráðalaus, ég er búinn að prófa allt,“ segir Ari Steinarsson íbúi á Kársnesi í Kópavogi. Hann segir farir sínar ekki sléttar af kattaumgangi í íbúð sinni en hann býr á jarðhæð. Undanfarnar þrjár vikur hefur Ari, ásamt ófrískri konu sinni, vaknað að minnsta kosti fjórum sinnum við umgang í köttum í íbúð sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×