Innlent

Þurfa að endurbyggja hluta af Hörpu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Einn veggurinn á Hörpu stenst ekki álagsprófanir.
Einn veggurinn á Hörpu stenst ekki álagsprófanir.
Glerveggurinn sem myndar suðurhlið Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu stenst ekki mesta vindálag sem búast má við á næstu 50 árum, samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið. Að mati aðalverktaka hússins, ÍAV, er nauðsynlegt að taka vegginn niður og endurbyggja. Í tilkynningu frá aðstandendum Hörpu kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir að þetta muni seinka opnun hússins.í maí á næsta ári.

ÍAV vinnur nú að áætlun um úrbætur sem mun tryggja að hægt verður að opna húsið á tilskyldum tíma. ÍAV er sem aðalverktaki ábyrgt fyrir framleiðslu og uppsetningu glerhjúpsins en kínverska fyrirtækið Lingyun er sem undirverktaki ábyrgt gagnvart ÍAV. Stjórnendur Austurhafnar og Portusar hafa gert kröfu um að hugsanlegt fjárhagstjón verði bætt.

„Það var í byrjun síðustu viku sem aðalverktaki byggingarinnar tilkynnti þetta sem auðvitað veldur okkur vonbrigðum þar sem framkvæmdir hafa gengið vel og verið á áætlun. Stjórnendur Portusar og Austurhafnar fagna því hins vegar að þetta hefur lítil sem engin áhrif á opnun hússins að mati verktakans.. Þá er það jákvætt að ÍAV hafi lagt í vandaðar rannsóknir á álagsþoli stálsins og taki fulla ábyrgð ásamt undirverktaka glerhjúpsins, Lingyun, á endursteypu og enduruppsetningu burðarvirkisins. Við vísum að öðru leyti á Íslenska aðalverktaka (ÍAV) um orsakir þessa og hvernig staðið verður að framkvæmdinni." segir Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Totus ehf., félags sem reisir Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu í tilkynningu sem barst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×