Enski boltinn

Fabregas benti á ósamræmi hjá dómurum á twitter-síðu sinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fabregas, fyrirliði Arsenal, tók út leikbann þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Wigan í ensku úrvalsdeildinni í gær. Hann vildi eins og aðrir Arsenal-menn fái víti á lokamínútunum þegar James McArthur, varnarmaður Wigan, varði aukaspyrnu Samir Nasri með hendinni. Dómari leiksins dæmdi hinsvegar ekkert og Arsenal sá á eftir tveimur mikilvægum stigum í toppbaráttunni.

Fabregas fór inn á twitter-síðu sína eftir leikinn og sagði sína skoðun á dómnum sem aldrei var dæmdur á DW leikvanginum í gær. Fabregas rifjaði það upp þegar víti var dæmt á hann í leik á móti Tottenham fyrr á þessu tímabili.

„Hver er munurinn á þessu og þegar dæmd var hendi á mig á móti Spurs? Dómarar vilja ekki að við kvörtum yfir þeim en þeir gera sjálfir sér lífið erfitt," sagði Fabregas.

„Ég er ekki að kvarta en vil bara vekja athygli á því að sumir dómarara dæma víti á þetta og aðrir ekki. Er þetta regla eða fer þetta bara eftir tilfinningu dómara?," spyr Fabregas á twitter-síðunnu sinni.

Það er hægt að skoða svipmyndir úr leiknum í gær og þar á meðal þetta atvik með því að smella hér fyrir ofan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×