Enski boltinn

Leeds í 2. sætið eftir sigur á QPR - Aron Einar fékk rautt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í leik með Coventry.
Aron Einar Gunnarsson í leik með Coventry. Nordic Photos / Getty Images

Leeds hafði betur gegn QPR í toppslag ensku B-deildarinnar í dag en þetta var annað tap síðarnefnda liðsins í röð.

Leiknum lauk með 2-0 sigri Leeds en QPR var taplaust í deildinni þar til um síðustu helgi. QPR er engu að síður á toppnum með 41 stig en Leeds er komið upp í 38 stig.

Cardiff og Swansea koma svo næst með 37 stig en fyrrnefnda liðið á leik til góða. Swansea tapaði í dag fyrir Sheffield United, 1-0.

Alls fóru sex leikir fram í deildinni í dag, þrátt fyrir snjókomuna í Bretlandi sem gerði það að verkum að sjö af níu leikjum helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni var frestað. Aðeins fjórum var frestað í ensku B-deildinni.

Heiðar Helguson kom inn á sem varamaður á 75. mínútu fyrir Rob Hulse sem hefur haldið Heiðari út úr liðinu síðustu vikurnar.

Max Gradel skoraði bæði mörk Leeds í dag en sigur liðsins ætti að kæta fjölmarga stuðningsmenn liðsins hér á landi. Þetta gamla stórveldi hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár en nú er aftur farið að birta til.

Aron Einar Gunnarsson fékk að líta rauða spjaldið er Coventry tapaði fyrir Norwich í dag, 2-1. Hann fékk beint rautt fyrir tæklingu á Henri Lansbury, leikmann Norwich, eftir 35 mínútna leik.

Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson voru ekki í leikmannahópi Reading sem vann 2-1 sigur á Derby í dag.

Úrslit dagsins:

Coventry - Norwich 1-2

Derby - Reading 1-2

Hull - Bristol City 2-0

Leeds - QPR 2-0

Nottingham Forest - Crystal Palace 3-0

Sheffield United - Swansea 1-0






Fleiri fréttir

Sjá meira


×