Innlent

Rannsókn á stærsta amfetamínsmygli sögunnar miðar ágætlega

Jón H.B. Snorrason og Karl Steinar Valsson á blaðamannafundi um málið.
Jón H.B. Snorrason og Karl Steinar Valsson á blaðamannafundi um málið. Mynd/Anton
Rannsókn á innflutningi tveggja þýskra kvenna á 20 lítrum af amfetamínbasa er enn í fullum gangi og miðar ágætlega, að sögn Jóns H.B. Snorrasonar, aðstoðarlögreglustjóra. Hann segir rannsóknina miða að því að upplýsa um öll atvikin sem hér áttu sér stað, uppruna efnanna og ástæður fyrir flutningi þeirra hingað til lands. Það er allt gert í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld og stofnanir.

Konurnar tvær komu með Norrænu þann 17. júní síðastliðinn á Volkswagen Passat bíl. Í bensíntanki bílsins voru 20 lítrar af amfetamínbasa faldir, en hægt er að búa til um 270 kg af sterku amfetamíni úr vökvanum. Þetta er stærsti amfetamínfundur hér á landi.

Íslenskir lögreglumenn fóru til Þýskalands og segir Jón að þær upplýsingar muni hafa þýðingu í málinu og rannsókninni. Aðspurður hvernig rannsókninni miðar að því að tengja smyglið við íslenska aðila, segir Jón ekki vilja tjá sig um það. „Það er náttúrulega alveg ljóst að þetta efni átti með einum eða öðrum hætti að lenda í höndum íslenska aðila og neytenda."

Gæsluvarðhald yfir annarri konunni rennur út á morgun og hinni 19. júlí. Krafist verður áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir þeim báðum.


Tengdar fréttir

Stærsti amfetamínfundur Íslandssögunnar

Alls var hægt að framleiða 263 kíló af amfetamíni úr amfetamín-vökvanum sem lögreglan lagði hald á í Norrænu 17. júní síðastliðinn.

Amfetamínsmygl: Farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald

Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir konunum tveim sem voru handteknar 17. júní síðastliðinn, en gæsluvarðhald rennur út í dag. Í bíl sem þær komu í með Norrænu voru 20 lítrar af amfetamín-basa faldir í bensíntanki bifreiðarinnar. Hægt er að framleiða 264 kíló af amfetamíni úr vökvanum, en þetta er stærsti amfetamínfundur á Íslandi til þessa.

Talið að erlend glæpasamtök hafi sent konurnar

Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar hjá lögreglunni, segir að það sé eðlileg ályktun að telja að erlend glæpasamtök hafi sent tvær konur til landsins með 20 lítra af amfetamínbasa þann 17. júní síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×