Innlent

Talið að erlend glæpasamtök hafi sent konurnar

Jón H.B. Snorrason og Karl Steinar Valsson á blaðamannafundi í gær.
Jón H.B. Snorrason og Karl Steinar Valsson á blaðamannafundi í gær. Mynd/Anton
Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar hjá lögreglunni, segir að það sé eðlileg ályktun að telja að erlend glæpasamtök hafi sent tvær konur til landsins með 20 lítra af amfetamínbasa þann 17. júní síðastliðinn.

Konurnar, sem eru þýskir ríkisborgarar en fæddar í Rússlandi og Kasakstan, voru teknar þegar þær komu með Norrænu á Seyðisfirði á þjóðhátíðardaginn. Í bensíntanki bílsins voru 20 lítrar af amfetamínbasa en með vökvanum er hægt að framleiða allt upp í 264 kíló af amfetamíni. Þær sitja nú í gæsluvarðahaldi til 2. júlí að minnsta kosti.

Karl Steinar segir að formið á flutningnum, að efni í fljótandi formi sé komið fyrir í bensíntanki, sé þekkt aðferð sem brotahópar í Austur-Evrópu eru þekktir fyrir að nota. Rannsókn lögreglunnar lítur að því að komast að því hverjir standi að baki flutningnum. Karl Steinar segir að það sé eðlilegt að draga þá ályktun að erlend glæpasamtök standi að baki smyglinu „...því annars væri aldrei hægt að geta gert þetta með þeim hætti sem þetta er."

Amfetamínbasinn sem lögreglan haldlagði við komu kvennanna til landsins.Mynd/Lögreglan
Lögreglan vinnur í samstarfi við Europol sem sér um tengsl hennar við lögregluyfirvöld í öðrum löndum. „Öll svona mál vinnum við í gegnum Europol sem sér síðan um okkar tengingar við þau lönd sem við teljum að tengjast málunum á hverjum tíma fyrir sig." Fókus lögreglunnar er á þau hefðbundnu lönd þar sem amfetamínframleiðsla hefur verið mikil.

Hann segir rannsóknina ganga ágætlega en ekki sé hægt að segja til um tengsl Íslands við málið. „Það er í ákveðnu ferli, það er ekkert hægt að segja til um það enn þá."








Tengdar fréttir

Stærsti amfetamínfundur Íslandssögunnar

Alls var hægt að framleiða 263 kíló af amfetamíni úr amfetamín-vökvanum sem lögreglan lagði hald á í Norrænu 17. júní síðastliðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×