Innlent

Reyndu að bera eld að dyrum Alþingishússins

Frá mótmælunum í gærkvöldi.
Frá mótmælunum í gærkvöldi. MYND/Vilhelm

Tveir lögreglumenn slösuðust og voru fluttir á slysadeild eftir að mótmælendur grýttu þá með gangstéttarsteinum við Stjórnarráðið í nótt. Annar lögreglumannanna er enn á slysadeildinni, meðal annars með heilahristing.

Fleiri lögreglumenn skrámuðust í grjótkastinu en varðstjóri segir að hjálmar og skildir hafi komið í veg fyrir að verr hafi farið auk þess sem nokkrir mótmælendur hafi komið lögreglu til hjálpar. Að minnsta kosti einn mótmælandi var fluttur á slysadeild eftir að hafa fengið piparúða í augun og sjúkraflutningamenn aðstoðuðu þó nokkra mótmælendur á staðnum, eftir að þeir höfðu líka fengið úða í augun.

Skemmdir voru unnar á aðaldyrum Alþingishússins og reynt að bera eld þar að en lögreglumenn komu í veg fyrir það. Sprengdu þeir meðal annars táragassprengjur á Austurvellinum, sem ekki hefur gerst síðan 30. mars 1949, í miklum mótmælum gegn inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið.

Eldar voru líka kveiktir fyrir utan Þjóðleikhúsið, þar sem samfylkingarmenn réðu ráðum sínum og fyrir utan stjórnarráðshúsið. Að sögn lögreglu voru aðgerðir mun harðari í nótt en í fyrrinótt, en kyrrð komst á um klukkan þrjú í nótt. Enginn var handtekinn.

Um það bil hundrað lögregluþjónar voru á vakt frá því að mótmæli hófust í gærdag og þar til þeim lauk. Var meðal annars fenginn liðsauki frá Keflavík og Selfossi. Mótmælin á Akureyri voru hins vegar friðsöm þar sem hátt í hundrað manns komu saman á Ráðhústorginu og kveiktu í lítlum bálkesti. Þar lauk mótmælum á tólfta tímanum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.