Innlent

Catalina aftur í gæsluvarðhald

Vændishús Catalina gerði út fjórar stúlkur í þessu húsi við hlið lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu. Fréttablaðið/gva
Vændishús Catalina gerði út fjórar stúlkur í þessu húsi við hlið lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu. Fréttablaðið/gva

Lögreglumál Catalina Mikue Ncogo, sem komst í fréttir vegna meints mansals fyrr á árinu, hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 12. maí. Hún er grunuð um aðild að nokkuð umfangsmiklu smygli á fíkniefnum hingað til lands.

Catalina er talin tengjast tveimur belgískum konum sem í síðustu viku voru dæmdar í tíu mánaða fangelsi fyrir að flytja til landsins ríflega 350 grömm af kókaíni innvortis 12. apríl. Refsing kvennanna var milduð vegna þess að þær bentu báðar á skipuleggjanda smyglsins á mynd.

Þá er Catalina jafnframt talin tengjast belgískum karlmanni sem handtekinn var í Leifsstöð með fíkniefni innvortis en flúði síðan úr haldi lögreglu. Hann náðist hálfum sólarhring síðar.

Catalina, sem er íslenskur ríkis­borgari og ættuð frá Miðbaugs-Gíneu, var einnig úrskurðuð í gæsluvarðhald um miðjan febrúar. Þá hafði hún verið handtekin í Leifsstöð við komuna til landsins, grunuð um mansal og að hafa ætlað að flytja tólf kíló af kókaíni til landsins í félagi við kærasta sinn.

Kærastinn var handtekinn á flugvelli í Amsterdam með efnið í fórum sínum.

Mansalsgrunurinn beindist að vændisstarfsemi sem Catalina hefur viðurkennt að hafa rekið hérlendis. Alls hafi hún haft tólf konur á sínum snærum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×