Innlent

Sannfærður um að ESB aðild muni skapa ný atvinnutækifæri

Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist vera sannfærður um að aðild Íslands að Evrópusambandinu muni skapa ný atvinnutækifæri. Hann segir að frjálshyggjutilraun síðustu tveggja áratuga hafi mistekist herfilega og að þjóðin verði áratugi að jafna sig.

Þetta kom fram í ræðu Kristjáns á þingi Starfsgreinasambandsins sem nú stendur yfir á Selfossi. Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, ávarpaði þingið í morgun.

Formaðurinn sagði að frjálshyggjutilraunin undanfarinna ára hafi mistekist. „Og hver er staðan núna ári síðar? Hún er skelfileg. Það er sviðin jörð hvert sem litið er og ekki eru öll kurl komin til grafar. Svo virðist sem lukkuriddarar frjálshyggjunnar hafi látið greipar sópa í íslensku atvinnulífi. Það eina sem er eftir af fjölskyldusilfrinu eru lífeyrissjóðirnir."

Kristján telur að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sé mikið fagnaðarefni. Hann sagðist hafa vilja sjá hana verða að veruleika við aðrar aðstæður. „Við hefðum átt að vera búin að sækja um fyrir alllöngu. Þá hefðu allir samningar verið okkur hagstæðari og það er með öllu óvíst að við værum í þeim sporum sem við erum í dag hefðum við borið gæfu til að stíga þetta skref fyrr."

Hann sagði Starfsgreinasambandið hafa alla tíð talað einum rómi varðandi mögulega aðild okkar að Evrópusambandinu. „Ég er sannfærður um að innganga í ESB mun færa okkur ný atvinnutækifæri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×