Innlent

Niðurstöður úr prófkjörum flokkanna

Sjálfstæðisflokkur í Reykjavík



Illugi Gunnarsson hreppti efsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Reykjavík. Illugi fékk ríflega helmingi fleiri atkvæði í fyrsta sætið en keppinautur hans Guðlaugur Þór Þórðarson sem hafnaði í öðru sæti. Alls tóku tæplega 8 þúsund manns þátt í prófkjörinu en talningu lauk skömmu fyrir miðnætti í gær. Pétur Blöndal hlaut þriðja sætið og Ólöf Nordal fjórða. Þar á eftir komu þeir Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson. Ásta Möller hafnaði í sjöunda sæti og Erla Ósk Ásgeirsdóttir í því áttunda.

Samfylkingin í Reykjavík

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hlaut 78 prósent atkvæða í fyrsta sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem lauk í gær. Jóhanna hlaut 2.766 atkvæði en alls voru greidd 3.543 atkvæði í prófkjörinu. Innan við helmingur flokksmanna tók þátt í prófkjörinu en kjörsókn var 45,8 prósent. Össur Skarphéðinsson iðnaðar- og utanríkisráðherra varð í öðru sæti og Helgi Hjörvar í því þriðja.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kemur ný inn á listann í fjórða sæti eins og Skúli Helgason sem lenti í fimmta sætinu og Valgerður Bjarnadóttir í því sjötta. Steinunn Valdís Óskarsdóttir er í sjöunda sæti og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra í áttunda sæti. Hún var lengi framan af mun neðar á listanum og leit út fyrir að hún næði ekki mögulegu þingsæti, en Samfylkingin hefur nú átta þingmenn í Reykjavík. Margt bendir því til að Ásta Ragnheiður hafi átt töluvert af utankjörfundaratkvæðum, en kosningin fór annars fram á Internetinu.

Mörður Árnason fyrrverandi þingmaður, sem nú situr sem varamaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á Alþingi, er í níunda sæti og í því tíunda er Anna Pála Sverrisdóttir formaður Ungra jafnaðarmanna, sem framan af kvöldi var lengi í áttunda sætinu.

Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, sem lýst hefur yfir vilja til að leiða Samfylkinguna fari Jóhanna ekki í formannsframboð, hafnaði í þrettánda sæti.

Sjálfstæðisflokkurinn í Suðvesturkjördæmi

Rúmlega 5 þúsund kusu í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Suðvesturkjördæmi en talningu lauk um klukkan ellefu í gær. Röð efstu manna er sem hér segir: Bjarni Benediktsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Ármann Kr. Ólafsson, alþingismaður, sem sóttist eftir 2. til 3. sæti hafnaði í sjöunda sæti.

Samfylkingin í Suðvesturkjördæmi

Árni Páll Árnason alþingismaður sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi sem lauk í gær, með rúmlega 42 prósent í fyrsta sæti listans. en hann var í fjórða sæti hans fyrir síðustu kosningar. Gunnar Svavarsson var þá í fyrsta sæti en gaf ekki kost á sér nú.

Katrín Júlíusdóttir hlaut annað sætið, eins og hún hafði áður og Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði, sem stefndi á fyrsta sætið, lenti í þriðja sæti. Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrverandi umhverfisráðherra varð í fjórða sæti, sem hingað til hefur verið baráttusæti flokksins í kjördæminu. Magnús Orri Schram, sem er nýr á lista, lenti í fimmta sæti, en kosning var bindandi í fyrstu fimm sætin í prófkjörinu.

Vinstri grænir í Suðvesturkjördæmi

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sigraði í forvali Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi í gær og hlaut 64 prósent atkvæða í fyrsta sætið. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra sem sóttist eftir öðru sætinu, fékk það sæti.

Vinstri grænir eru nú með einn þingmann í kjördæminu og því ljóst að flokkurinn þarf að bæta við sig fylgi frá síðustu kosningum til að Ögmundur nái kjöri, en skoðanakannanir að undanförnu benda til þess að það takist. Í þriðja sæti er Ólafur Þór Gunnarsson og Andrés magnússon er í fjórða sæti.

Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi

Ragnheiður Elín Árnadóttir hreppti fyrsta sætið í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi en þar kusu um 4 þúsund manns. Árni Johnsen varð í 2. sæti og Unnur Brá Konráðsdóttir í því þriðja. Þingmennirnir Kjartan Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir, náðu ekki öruggum sætum í prófkjörinu.








Tengdar fréttir

Tölur væntanlega úr Suðurkjördæmi upp úr miðnætti

Tölur eru væntanlegar úr Suðurkjördæmi upp úr miðnætti. Áður hafði verið gert ráð fyrir að talning þyrfti að frestast vegna veðurs og að tölur yrðu ekki kynntar fyrr en á morgun en það rofaði til stutta stund í dag og hægt var að skjótast með atkvæði frá Vestmannaeyjum. Á miðnætti verða því kynntar fyrstu tölur og heldur talning áfram fram á nótt, þar til úrslit liggja fyrir.

Árni Páll sigraði í Kraganum - Lúðvík 57 atkvæðum frá 1. sætinu

Árni Páll Árnason sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Talningu er lokið og munaði 57 atkvæðum á honum og Lúðvíki Geirssyni, bæjarstjóra í Hafnarfirði, sem einnig sóttist eftir fyrsta sætinu. Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrum umhverfisráðherra, hafnaði í fjórða sæti.

Illugi sigraði

Illugi hreppti efsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en lokatölur liggja fyrir.

Ásta Ragnheiður kemst ekki á blað - Sigríður í 3. sæti

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er þriðja sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík þegar talinn hafa verið 2363 atkvæði. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra, Mörður Árnason varaþingmaður og Jón Baldvin Hannibalsson eru ekki meðal átta efstu. Röð efstu manna hefur ekki breyst frá því að fyrstu tölur voru birtar.

Óbreytt staða í Suðvesturkjördæmi

Nýjar tölur eru komnar úr Kraganum og er Bjarni Benediktsson sem fyrr efstur og Þorgerður Katrín í öðru sæti. Ragnheiður Ríkharðsdóttir heldur þriðja sætinu, Jón Gunnarsson því fjórða, Óli Björn Kárason fimmta og Ármann Kr. Ólafsson er í sjötta sætinu. Nokkur spenna er þó um úrslitin því ekki munar miklu á frambjóðendum í þriðja til sjötta sæti.

Tækifæri til að gera landinu gagn

,,Ég hef fengið tækifæri til að gera flokknum og landinu mínu gagn," segir Illugi Gunnarsson sem hefur örugga forystu í 1. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. ,,Maður gleðst auðvitað þegar vel gengur."

Pínulítið hissa

,,Ég er pínulítið hissa en afskaplega þakklát og ánægð með þann stuðning sem ég hef fengið," segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur, en hún er í 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík þegar rúmlega 1300 atkvæði eru ótalin.

Óbreytt staða í Reykjavík - Illugi með örugga forystu

Nú hafa verið talin 4732 atkvæði í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík og hefur Illugi Gunnarsson örugga forystu í 1. sætið, með alls 2814 atkvæði. Lítil breyting er á röðun frambjóðenda fyrir neðan. Guðlaugur Þór Þórðarson er annar og Pétur Blöndal er í þriðja sæti.

Bjarni áfram efstur - Ragnheiður færist upp

Bjarni Benediktsson er enn í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokknum í Suðvesturkjördæmi. Ragnheiður Ríkharðsdóttir er komin í þriðja sætið þegar búið er að telja um 1.100 atkvæði en hún var í sjötta sæti í fyrstu talningu.

Talningu í Suðurkjördæmi frestað

Ákveðið hefur verið að fresta talningu atkvæða í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þar sem útséð er með að ekki verði hægt að koma atkvæðum frá Vestmannaeyjum til Selfoss í kvöld sökum ófærðar í lofti og á sjó. Frá þessu er greint á fréttavefnum Sunnlendingur.is.

Ásta Ragnheiður náði áttunda sætinu

Helgi Hjörvar og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skiptust á sætum þegar búið var að telja öll atkvæði hjá Samfylkingunni í Reykjavík. Helgi Hjörvar situr því í þriðja sæti listans en Sigríður í því fjórða. Þá færðist Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir upp í 8. sæti en Anna Pála Sverrisdóttir færðist niður í það 10. Mörður Árnason vermir svo 9. sætið. Alls greiddu 3543 atkvæði en 7743 voru á kjörskrá og var kjörsókn því 45,8%.

Ragnheiður Elín leiðir enn - Árni kominn í annað sæti

Ragnheiður Elín Árnadóttir leiðir enn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi þegar 3200 atkvæði af um 4000 hafa verið talin. Árni Johnsen er nú í öðru sæti og Unnur Brá Konráðsdóttir í því þriðja. Íris Róbertsdóttir er í því fjórða og Kjartan Ólafsson í fimmta sæti.

Illugi leiðir í Reykjavík

Illugi Gunnarsson hefur hlotið flest atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þegar rúmlega 3852 atkvæði hafa verið talinn af 7871. Guðlaugur Þór Þórðarson er annar og Pétur Blöndal er í þriðja sæti. Frá því að fyrstu tölur voru birtar hafa Sigríður Andersen og Erla Ósk Ásgeirsdóttir hafa sæta skipti.

Guðfríður Lilja leiðir VG í Suðvesturkjördæmi

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hreppti fyrsta sætið í forvali Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðvesturkjördæmi í dag. Í öðru sæti varð svo Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra.

Bjarni efstur í Kraganum - Rósa meðal efstu manna

Bjarni Benediktsson er í efsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi en þar er búið að telja 200 atkvæði. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er í öðru sæti. Þar á eftir koma Jón Gunnarsson, Ármann Kr. Ólafsson og Rósa Guðbjartsdóttir. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, alþingismaður, er í sjötta sæti en flokkurinn fékk sex þingmenn í kjördæminu í síðustu kosningum.

Bjarni varð efstur í Kraganum - Búið að telja

Lokatölur liggja fyrir í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi. Ekki urðu breytingar á röðun efstu manna á listanum. Bjarni Benediktsson mun því leiða listann, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður í öðru sæti og Ragnheiður Ríkharðsdóttir í því þriðja.

Ragnheiður Elín sigraði í Suðurkjördæmi

Talsverð endurnýjun varð í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Ragnheiður Elín Árnadóttir, núverandi þingmaður Suðvesturkjördæmis, sigraði örugglega í prófkjörinu en hlaut 2192 atkvæði í fyrsta sætið. Árni Johnsen, varð í 2. sæti með 1576 atkvæði í 1.-2. sæti.

Búið að telja 78% atkvæða í Reykjavík

Engar breytingar eru á röðun efstu tólf frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þegar að búið er að telja 6182 atkvæði af alls 7871 í prófkjörinu, eða um 78% atkvæða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×