Enski boltinn

Owen missir ekki svefn vegna enska landsliðsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Owen í leik með Manchester United.
Michael Owen í leik með Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Michael Owen sagði í gær að hann væri ekki mikið að velta því fyrir sér hvort hann yrði valinn í landsliðshóp Englands fyrir HM næsta sumar.

Owen verður líklega í byrjunarliði United gegn CSKA Moskvu er liðin mætast í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Wayne Rooney er nýorðinn pabbi og fær væntanlega frí og þá á Dimitar Berbatov við meiðsli að stríða.

„Vissulega get ég haft áhrif á það hvort ég verði valinn í landsliðið með því að spila vel. Það skemmir heldur ekki fyrir að spila í Meistaradeildinni," sagði Owen. „En ég fer ekki að sofa á kvöldin og hugsa um hvort ég verði valinn í enska landsliðið."

„Ég hugsa fyrst og fremst um að spila vel með Manchester United og hitt sér um sig sjálft. Ég á 89 landsleiki að baki og væri mikið til í að spila aftur með liðinu. Ef það gerist, þá gerist það - ef ekki, þá ekki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×