Innlent

Rannsóknarnefndin tekin til starfa

Rannsóknarnefnd Alþingis sem ætlað er að rannsaka aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna og tengda atburði hefur tekið til starfa. Á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu sem nefndin hélt í dag kom fram að nefndin hefur þegar fundað með fulltrúum í fjármálalífinu á borð við skilanefndir bankanna, forsvarsmenn Kauphallar, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka.

Til stendur að ráða erlendan sérfræðing til starfa hjá nefndinni en frá því hefur ekki verið gengið. Þó kom fram á fundinum að þeir aðilar sem rætt hafi verið við um að taka starfið að sér hafi sýnt því mikinn áhuga.

Nefndarmenn sögðu á fundinum að afar mikilvægt væri að almenningur veiti nefndinni liðsinni í störfum sínum og hefur henni nú þegar borist nokkrar ábendingar sem til stendur að skoða nánar. Fólk getur komið ábendingum til nefndarinnar í gegnum heimasíðu sem sett hefur verið í loftið.

Í nefndinni eiga sæti Páll Hreinsson hæstaréttardómari, Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis og Sigríður Benediktsdóttir kennari við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum.

Heimasíða nefndarinnar er aðgengileg hér.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×