Opinber kynning Cristiano Ronaldo sem leikmanni Real Madrid fór fram fyrir framan 80 þúsund stuðningsmenn liðsins á Santiago Bernabeu. Ronaldo kom þá fram í nýju Real Madrid treyju sinni sem verður númer níu.
„Ég er búinn að upplifa einn af mínum draumum," sagði Cristiano Ronaldo við troðfullan Bernabeu-völlinn áður en hann leiddi alla í hópsöng þar sem allir sungu saman „Viva Madrid". Stemmningin á vellinum var einstök og það var ekki að sjá annað en Ronaldo yrði hræður af öllum móttökunum.
Real Madrid keypti Ronaldo á 80 milljón punda frá ensku meisturunum í Manchester United en spænska liðið var búið að elta þennan 24 ára Portúgala frá árinu 2006.
„Ég hefði aldrei trúað að stuðningsmenn Real tækju svona vel á móti mér. Þetta var magnað og mjög stór og sérstök stund fyrir mig," sagði Ronaldo sem talaði á spænsku en skipti stundum yfir í portúgölskuna.
Ronaldo skoraði 120 mörk í 313 leikjum með Manchester United og það er mikil pressa á honum að leika það eftir með Real Madrid.